Skip to main content
6. apríl 2017

Lesblindir eiga erfiðara með tengingu forma í umhverfi

Lesblinda gæti að hluta stafað af vandkvæðum við að læra sjálfkrafa og ómeðvitað hvaða hlutir fara oft saman í umhverfinu. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem unnin var af rannsóknarhópi undir forystu Heiðu Maríu Sigurðardóttur, lektors við Sálfræðideild Háskóla Íslands, og í nánu samstarfi við Árna Kristjánsson, prófessor við sömu deild. Rannsóknin birtist 4. apríl í vísindatímaritinu Scientific Reports.

Auk Heiðu Maríu og Árna koma núverandi og fyrrverandi nemendur við Sálfræðideild að rannsókninni, þau Hilda Björk Daníelsdóttir, Margrét Guðmundsdóttir, Kristján Helgi Hjartarson og Elín Ástrós Þórarinsdóttir.

Vísindamenn hafa hingað til almennt verið sammála um að lesblinda sé röskun á tungumáli, einkum hljóðkerfisleg röskun. Rannsóknarhópurinn við Sálfræðideild Háskóla Íslands hefur hins vegar undanfarið rannsakað hvort þættir tengdir sjóninni spili einnig þar inn í, en áður hefur rannsóknarhópurinn sýnt fram á að lesblindir eigi alla jafna erfiðara en aðrir með að bera kennsl á flókna hluti á borð við andlit og ólíkar fuglategundir. Þetta gefur vísbendingar um að lesblindu megi að einhverju leyti rekja til starfsemi sjónkerfis heilans. Þessu til stuðnings bendir rannsóknarhópurinn á að ákveðin heilasvæði, sem talin eru gegna mikilvægu hlutverki við að bera kennsl á orð og önnur flókin áreiti, eru gjarnan vanvirk í fólki með lesblindu. Óljóst er hvað veldur þessari vanvirkni.

Ein hugsanleg orsök þessarar vanvirkni er að sjónkerfi lesblindra mótist ekki af sjónrænni reynslu að sama marki og sjónkerfi fólks sem er ekki með lesblindu. Taugafrumur á tilteknum svæðum sjónkerfisins eru næmar fyrir ákveðnum samsetningum áreita, svo sem hvaða bókstafir koma oft saman í orðum, og sjónræn reynsla er talin ákvarða að miklu leyti hvaða samsetningum þessar taugafrumur eru næmar fyrir. Þetta sjónræna líkindanám (e. visual statistical learning) gerist oft sjálfkrafa og ómeðvitað og hjálpar okkur að þekkja hluti og orð. Sé sjónrænt líkindanám aftur á móti skert ætti það að geta orðið til þess að taugafrumurnar verði ekki jafn næmar fyrir því hvaða áreiti birtast oft saman í umhverfinu, sem aftur gæti leitt til þess að fólk eigi erfiðara með að bera kennsl á sjónræn áreiti á borð við skrifuð orð.

Lesblindir eiga erfiðara með sjónrænt líkindanám

Markmið rannsóknarinnar sem um ræðir var því að skoða hvort lesblindir eigi erfiðara með sjónrænt líkindanám en fólk sem á ekki við lestrarörðugleika að stríða. Rannsóknarhópurinn bar saman frammistöðu 37 lesblindra einstaklinga á fullorðinsaldri og jafnmargra sem ekki glíma við lesblindu (paraðir eftir kyni, aldri og menntunarstigi) á prófi sem reynir á sjónrænt líkindanám. Í prófinu var notast við einföld form sem þátttakendur höfðu ekki séð áður. Sum form birtust oft saman á meðan önnur birtust sjaldan eða aldrei saman. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að með sjónrænu líkindanámi getur fólk lært ómeðvitað hvaða form fari saman, jafnvel þótt það geri sér ekki meðvitaða grein fyrir tengslum þeirra. 

Rannsóknin leiddi í ljós að lesblindir eiga almennt erfiðara með sjónrænt líkindanám en aðrir en lesblindir þátttakendur lærðu síður hvaða form birtust oft saman en þátttakendur sem ekki eru lesblindir. Þessar niðurstöður mátti ekki rekja til mismunar milli hópanna í greind eða hæfni til að bera kennsl á formin sjálf. Aftur á móti er mögulegt að þennan mun megi að einhverju leyti rekja til athyglisvanda en vel er þekkt að lesblindir sýna oft merki um athyglisbrest. Fjöldi einkenna athyglisbrests með ofvirkni á barnsaldri virtist sérstaklega tengjast að einhverju leyti frammistöðu á prófinu sem mat sjónrænt líkindanám. Þetta þyrfti hins vegar að skoða betur með frekari rannsóknum. 

Rannsóknarhópurinn við Sálfræðideild Háskóla Íslands vinnur nú að frekari rannsóknum á lesblindu. Leitað er að þátttakendum í þá rannsókn, bæði fólki með lesblindu og þeim sem ekki glíma við hana. Allir 18 ára og eldri, sem hafa áhuga á að að vera með, eru hvattir til að hafa samband í gegnum netfangið skynjun@hi.is eða símanúmerið 845-0833. 

Einnig má fylgjast með verkefninu á Facebook-síðu þess.

Heiða María Sigurðardóttir