Skip to main content
2. nóvember 2015

Legó-keppnin á RÚV í kvöld

Núna í kvöld, þriðjudaginn 3. nóvember, verður sýndur á RÚV frísklegur þáttur um hina frábæru tækni- og hönnunarkeppni grunnskólanemenda, FIRST LEGO League (FLL). Krakkar alls staðar af landinu koma á hverju ári í Háskóla Íslands til að reyna með sér í mismunandi þrautum í Lego-keppninni. Í keppninni reynir á fjölþætta hæfileika einstaklinga og hópa en markmiðið er að auka vísindalegan skilning og færni. Metþátttaka var í keppninni fyrr á þessu ári en um 200 áhugasamir krakkar mættu til leiks

Það fer vel á því að sýna þáttinn í þessari viku því næsta landskeppni Lego fer fram 14. nóvember í Háskólabíói. Háskóli Íslands hefur umsjón með keppninni sem endranær.

Í Lego-keppninni virkja krakkarnir litla rafdrifna þjarka eða róbóta, sem eru að mestu leyti gerðir úr Lego-kubbum. Þjarkarnir kljást svo við ótrúlegar þrautir en þeir eru forritaðir sérstaklega af krökkunum. Með þeirri flóknu en spennandi vinnu skynja krakkarnir mikilvægi tækni og nýsköpunar en þau sjá líka fljótt hversu máttug samheldnin er. Samvinnan er lykillinn að sigri í Lego.

Í þættinum, sem Háskóli Íslands framleiðir ásamt Drengsson Pics, er fylgst sérstaklega með stórskemmtilegum og metnaðarfullum liðum frá Höfn í Hornafirði og úr Breiðholtsskóla. 

Eins og sjónvarpsáhorfendur uppgötva annað kvöld er Lego-keppnin samt miklu meira en þjarkar og þrautir. Keppninni  er nefnilega skipt í nokkra hluta og hefur ár hvert sérstakt þema. Í síðustu keppni var það „Skóli framtíðarinnar“.

Meðal verkefna krakkanna var að vinna vísindalega rannsókn sem tengist þessu þema og jafnframt að halda ítarlega dagbók um allan undirbúninginn fyrir keppnina. Keppnisliðin þurftu líka að flytja frumsamið skemmtiatriði.

Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri markaðs- og samskiptasviðs Háskólans, Björn Gíslason, kynningarstjóri hjá Háskólanum, og Stefán Drengsson kvikmyndagerðarmaður sáu um dagskrárgerð. Jón Örn stjórnaði upptökum og er þulur í þáttunum. Nýherji studdi framleiðslu þáttarins en Nýherji er einnig einn helsti stuðningsaðili keppninnar.

Fylgist með fjörinu og töfrum tækninnar í kvöld á RÚV klukkan 20:10.

Frá Lego-keppninni
Lið Breiðholtsskóla
Liðið Gemsar frá Höfn í Hornafirði
Frá Lego-keppninni
Lið Breiðholtsskóla
Liðið Gemsar frá Höfn í Hornafirði