Skip to main content
6. desember 2016

Lagastofnun semur um styrki á sviði hugverkaréttar

""

Lagastofnun Háskóla Íslands hefur undirritað samninga við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Einkaleyfastofu og Össur Iceland ehf. um styrki til stofnunarinnar vegna rannsóknarverkefnis á sviði hugverkaréttar. Er stefnt að því að gefið verði út kennslurit í hugverkarétti á árinu 2019.

Samkvæmt samningunum hefur Lagastofnun samið við Erlu Skúladóttur hdl. LL.M. um að taka að sér verkefni sérfræðings til að sinna rannsóknum í hugverkarétti, þ.m.t. á sviði vörumerkja, einkaleyfa og höfundaréttar. Auk þess er gert  ráð fyrir að haldnir verði fræðafundir fyrir starfsfólk styrkveitenda í tengslum við þau rannsóknaverkefni sem unnið er að á hverjum tíma og ákveðin eru sameiginlega af samningsaðilum.

Samningurinn kveður á um styrk til Lagastofnunar um 3 milljónir króna á ári í þrjú ár eða í heild um 9 milljónir á samningstímanum. Sigrún Brynja Einarsdóttir undirritaði samning af hálfu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Borghildur Erlingsdóttir af hálfu Einkaleyfastofunnar og Tatjana Latinovic af hálfu Össur Iceland ehf. en fyrir hönd Háskólans, Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar. 

Á myndinni má sjá frá vinstri: Ragnheiði Bragadóttir stjórnarformann Lagastofnunar, Daða Má Kristófersson, Borghildi Erlingsdóttur, Tatjönu Latinovic, Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, Maríu Thejll og Erlu Skúladóttur.
Á myndinni má sjá frá vinstri: Ragnheiði Bragadóttir stjórnarformann Lagastofnunar, Daða Má Kristófersson, Borghildi Erlingsdóttur, Tatjönu Latinovic, Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, Maríu Thejll og Erlu Skúladóttur.