Skip to main content
3. janúar 2017

Kynna nærri 300 rannsóknir í heilbrigðisvísindum

""

Mjög góð þátttaka er í 18. ráðstefnunni í líf- og heilbrigðisvísindum sem hófst á Háskólatorgi í morgun, 3. janúar. Á ráðstefnunni, sem lýkur á morgun, verða kynntar hátt í 300 rannsóknir sem ná yfir öll fræðasvið líf- og heilbrigðisvísinda og er umsjón hennar í höndum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Ráðstefnunni er ætlað að miðla því sem er efst á baugi í líf- og heilbrigðisvísindum hverju sinni og stuðla að auknu þverfræðilegu samstarfi. Til marks um fjölbreytnina þá spannar umfjöllunarefnið allt frá stofnfrumum og sýklafræði til íþrótta, skurðlæknisfræði og andlegrar og líkamlegrar heilsu manna á öllum æviskeiðum. Áhersla er lögð á að málstofur séu eins þverfræðilegar og unnt er til þess að tengja saman vísindafólk úr ólíkum áttum.

Á ráðstefnunni er enn fremur boðið upp á tvær málstofur á ensku til þess til þess að koma til móts við vaxandi fjölda enskumælandi nemenda og starfsfólks við Háskóla Íslands. Þá verða einnig tvær sérstakar gestamálstofur á dagskrá þar sem skipulagning og val á efni er í samstarfi við utanaðkomandi sérfræðinga. Einnig verður efnt til opinna fyrirlestra fyrir almenning þar sem fjallað verður á aðgengilegan hátt um notkun stofnfrumna í rannsókna- og lækningaskyni annars vegar og um hamingju og sjálfsmynd í neyslusamfélagi nútímans hins vegar.

Allir eru velkomnir á ráðstefnuna og aðgangur er ókeypis.

Dagskrá ráðstefnunnar í heild má nálgast á heimasíðu hennar.

Frá ráðstefnu í líf- og heilbrigðisvísindum