Skip to main content
27. október 2016

Kosningar og kynjaskepnur á Vísindadegi VoN

Kosningar um það hver verði framtíðarorkugjafi Íslands og hvaða eldfjall gýs næst á Íslandi, dularfull dýrarannsóknastofa, eldfjallaherbergi, ferðalag um sólkerfið og rafknúinn kappakstursbíll er meðal þess sem í boði verður á Vísindadegi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands sem fram fer í Öskju á sjálfan kosningadaginn, laugardaginn 29. október, kl. 12-16.30. Þar verður einnig boðið upp á stuttar og fróðlegar kynningar á fjölbreyttum rannsóknarverkefnum innan sviðsins.

Vísindadagurinn, sem nú er haldinn í þriðja sinn, er ætlaður allri fjölskyldunni og markmið hans er að kynna undur verkfræði og raun- og náttúruvísinda fyrir ungum sem öldnum. Viðburðurinn hefur notið mikilla vinsælda síðustu tvö ár en að honum koma bæði nemendur og starfsmenn Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Kynningar á rannsóknaverkefnum verða bæði á íslensku og ensku enda hefur sviðið á að skipa fjölþjóðlegum hópi starfsmanna og nemenda. 

Þingkosningar eru þennan dag og tekur dagskrá Vísindadagsins mið af því. Gestum og gangandi býðst að taka þátt í kosningu um það hver verði framtíðarorkugjafi Íslands, hvaða eldfjall gýs næst á Íslandi og hver er fallegasti fuglinn í íslenskri náttúru, svo eitthvað sé nefnt.

Þá verður dularfulla dýrarannsóknastofan opin í tilefni hrekkjavöku en þar verður að finna ýmsar kynjaskepnur. Einnig verður hægt að upplifa eldgos í návígi í sérstöku eldfjallaherbergi auk þess sem Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, og færustu jarðvísindamenn Háskólans sýna með lifandi hætti hvernig þeir, í samstarfi við Veðurstofu Íslands, vakta eina hættulegustu eldstöð á Íslandi, Kötlu.

Enn fremur mun Sprengju-Kata töfra fram ýmsar efnafræðitilraunir og hægt verður að ferðast um himingeiminn í stjörnutjaldinu með Sólmyrkva-Sævari. Fulltrúar Vísindasmiðju Háskóla Íslands, sem hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal grunnskólabarna, verða á staðnum með ýmis tól og tæki og þá gefst ungu kynslóðinni færi á að setjast í rafknúinn kappakstursbíl sem verkfræðinemar við Háskóla Íslands hafa hannað og þróað.

Meðal þeirra áhugaverðu rannsóknarverkefna sem kynnt verða í stuttum erindum á Vísindadeginum er verkefnið „Sound of Vision“ sem gengur út á að þróa og hanna búnað sem gerir blindum og sjónskertum kleift að skynja umhverfi sitt í rauntíma. Enn fremur verður sagt frá rannsóknarverkefninu „Maður fyrir borð“ en það snýst um að þróa búnað sem skynjar og kemur boðum til vaktstöðvar ef sjómaður á smábáti fellur fyrir borð. Þá verður einnig fjallað um hvernig erfðaefni stýrir þroska lífvera, svokallaða skammtaflækjun sem kölluð hefur verið „draugagangurinn í fjarlægðinni“ og íslenskan kennsluhugbúnað sem notaður hefur verið í fangelsi í Kenía. Jarðskjálftar, eldgos og flugumferð, virkjanir og verndun og ferðamennska koma einnig við sögu í fjölbreyttum kynningum dagsins.

Ókeypis er á Vísindadag Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og er hann öllum opinn.

Frá Vísindadegi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs árið 2015
Frá Vísindadegi Verkfræði- og náttúruvísindasviðs árið 2015