Skip to main content
25. ágúst 2016

„Komið að því að stjórnvöld láti verkin tala“

Ársfundur Háskóla Íslands var haldinn í dag í Hátíðasal skólans að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, fjölda gesta, starfsfólks og nemenda.

Yfirskrift ársfundarins var „Öflugur Háskóli – farsælt samfélag,“ sem jafnframt eru kjörorð nýrrar og framsækinnar stefnu Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2016-2021. 

„Háskóli Íslands nýtur mikils trausts hjá íslenskum almenningi og við höfum bundið miklar vonir við að stjórnvöld taki höndum saman með okkur í þeirri sókn sem fram undan er,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, í ávarpi sínu á fundinum en á honum fór háskólarektor yfir stöðu og framtíð skólans. Jón Atli sagði að þjóðarbúið stæði nú afar vel og allir hagvísar bentu til þess að bjart væri fram undan. „Það eru því gífurleg vonbrigði að í nýsamþykktri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu ár eru háskólarnir í landinu skildir eftir við nauðsynlega uppbyggingu innviða íslensks samfélags.“ 

Háskólarektor bætti því við að meðalframlag á hvern háskólanema í ríkjum OECD væri t.a.m. um þriðjungi hærra en á Íslandi og framlög á Norðurlöndum að meðaltali tvöföld á við það sem gerist hér. „Þetta hefur allt saman legið fyrir í langan tíma og ef ekki á að stefna uppbyggingarstarfi Háskóla Íslands í voða er komið að því að stjórnvöld láti verkin tala,“ sagði rektor. „Háskóli Íslands er afar vel rekin stofnun og hefur með ráðdeild tekist að halda rekstrinum í jafnvægi um árabil. Þrátt fyrir mikið aðhald er í ár í fyrsta sinn gert ráð fyrir 300 m.kr. rekstrarhalla.“

Í framsögu sinni greindi Jón Atli einnig frá því að Háskóli Íslands hefði verið í mikilli sókn á undanförnum árum. Rannsóknavirkni starfsmanna hafi vaxið hratt og sýni alþjóðlegar mælingar að áhrif vísindastarfsins séu á flestum sviðum vel yfir heimsmeðaltali. Jón Atli benti einnig á að nú ljúki um 1,5% þjóðarinnar á aldrinum 25-64 ára prófgráðu frá skólanum á ári hverju. Á sama tíma væri Háskólinn í nánu samstarfi við marga af helstu rannsóknaháskólum heims auk ríkulegrar samvinnu við öflugar íslenskar vísindastofnanir og fyrirtæki. 

„Markmið Háskóla Íslands er að sækja fram á sviði rannsókna og kennslu ásamt því að efla gæði og styrkja innviði,“ sagði háskólarektor í ávarpi sínu. „Drifkrafturinn felst í að skapa nýja þekkingu og verðmæti byggð á rannsóknum og vísindum. Það er óumdeilt meðal þeirra þjóða sem fremstar standa að háskólar eru ómissandi hlekkur í þekkingar- og verðmætasköpun nútímasamfélaga og að lífskjör í framtíðinni munu byggja á menntun, vísindastarfsemi, nýsköpun og frumkvöðlahugsun,“ sagði rektor. 

„Faglegur styrkur Háskóla Íslands varð til þess að hann komst árið 2011 á lista Times Higher Education World University Rankings yfir 300 bestu háskóla heims. Árið 2015 var Háskóli Íslands í 222. sæti og jafnframt í 13. sæti yfir bestu háskóla á Norðurlöndum. Þessi árangur byggist á frábæru starfsfólki og skýrri langtímasýn og hann skapar fjölmörg tækifæri til samstarfs. Til að festa þennan árangur í sessi og ná viðspyrnu fyrir áframhaldandi sókn höfum við fyrir skömmu mótað nýja framtíðarstefnu fyrir tímabilið 2016-2021,“ sagði rektor enn fremur.  

Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, gerði sérstaklega grein fyrir hinni nýju framtíðarsýn skólans en Illugi Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra ávarpaði einnig fundinn.  

Þá fóru þau Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri Háskóla Íslands, og Jenný Bára Jensdóttir fjármálastjóri yfir fjárhag háskólans og að síðustu kynnti Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri markaðs- og samskiptasviðs skólans, brot úr nýrri sjónvarpsþáttaröð um fjölbreyttar rannsóknir í Háskóla Íslands.

Ársreikningur Háskóla Íslands 2015

Lykiltölur Háskóla Íslands

Frá ársfundi Háskóla Íslands