Skip to main content
18. mars 2015

Kennslurit um menningarmun og samskiptafærni

Erla S. Kristjánsdóttir, lektor við Viðskiptafræðideild, birti á dögunum kennsluheftið Cultural Detective Iceland sem hún vann í samstarfi við Þórunni Bjarnadóttur.

Að kynnast öðrum menningarheimi getur verið spennandi og streituvaldandi á sama tíma. Hlutir sem virðast sjálfsagðir í eigin menningu geta þótt dónalegir og/eða óviðeigandi annars staðar. Þá er gagnlegt að hafa skilning á grunngildum og hefðum mismunandi samfélaga og geta greint hvað liggur að baki mismunandi samskiptavenjum á alþjóðlegum vettvangi.

Markmið Cultural Detective Iceland og tilheyrandi kennsluefnis er að sýna fram á hvernig bæta má samskipti og skilning Íslendinga á og við fólk frá öðrum menningarheimum.

Í ritinu er notast við dæmisögur til að sýna fram á hvernig hægt er að meta menningarmun og brúa bilið sem getur komið upp er á milli einstaklinga af ólíkum uppruna. Rætt er hvernig má eiga uppbyggileg samskipti til að mynda góð sambönd og hvernig má skilja sjálfan sig, sína eigin menningu og aðra menningu betur.

Í heftinu er m.a. skilgreining á menningu og kynning á íslenskri menningu og íslenskum gildum. Einnig eru í því raunveruleg dæmi af samskiptum Indverja, Dana, Pólverja, Frakka, Spánverja og Bandaríkjamanna við Íslendinga, sem gagnlegt er að nota til að auka skilning og brúa bilið milli menningarheima.

Efnið má nálgast á netinu en einnig er  hægt að kaupa útprentað efni. Nánari upplýsingar um ritið og námskeið tengd því má nálgast á heimasíðu Cultural Detective: www.blog.culturaldetective.com

Við óskum Erlu innilega til hamingju með þennan áfanga.

Erla S. Kristjánsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir
Erla S. Kristjánsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir