Skip to main content
18. júlí 2016

Kennslukerfi nýtt í fangelsi í Kenía

""

Gunnar Stefánsson, prófessor í tölfræði við Raunvísindadeild, og Anna Helga Jónsdóttir, aðjunkt við sömu deild, fóru á dögunum til Kenía með kennslukerfið tutor-web í farteskinu. Alls fóru þau fóru með kerfið fyrir fjóra staði, þar á meðal í öryggisfangelsið Naivasha Maximum Security Prison. Alls eru 2700 fangar í fangelsinu en af þeim stunda 1500 einhvers konar nám, allt frá fyrsta bekk í grunnskóla upp í efstu bekki framhaldsskóla en einnig leggja margir stund á iðnnám.

Gunnar og Anna Helga höfðu meðferðis kerfi sem þau kalla Education in a Suitcase. Hugbúnaður og efni hefur verið þróað á vegum Háskóla Íslands með ýmsum styrkjum og er því ókeypis en safnað var fyrir vélbúnaði með hópfjármögnun (crowdfunding). Þannig var safnað fyrir netþjónum til skólanna en nemendur fengu hver sína sérmerkta spjaldtölvu til eignar. 

Á þeim stöðum sem heimsóttir voru er ekki þráðlaust net, netaðgang er sjaldan að finna og rafmagn er óstöðugt. Kerfið er því hannað fyrir slíkar aðstæður. Education in a Suitcase inniheldur ódýrar spjaldtölvur og þjón (server) sem geymir námsefni. Auk tutor-web kennsluefnisins, sem þróað hefur verið á vegum Gunnars og Önnu Helgu, fylgir kerfinu öll Wikipedia og myndbönd um stærðfræði frá Khan Academy.

Naivasha fangelsið

Fyrsti viðkomustaður var fangelsið í Naivasha. Í fangelsinu hittu Gunnar og Anna Helga tæplega 30 nemenda hóp og kenndu þeim hvernig nota má kerfið til að læra stærðfræði. 

Kennarar í fangelsinu eru ýmist fangaverðir eða fangar. Hér má sjá einn fangavörðinn útskýra virkni netþjónsins. Ekkert netsamband er í fangelsinu og því kemur netþjónninn að góðum notum þar.Fangarnir höfðu fæstir séð spjaldtölvu áður og enginn hafði haldið á slíku tæki. Það vakti þess vegna sérstaka athygli hve snöggir þeir voru að tileinka sér tæknina. 

Fangarnir fengu líka æfingu í að fletta upp í Wikipediu. Fyrsta verkefnið var að fletta upp Íslandi, sem fæstir þekktu nein deili á. Strax á eftir varpaði Anna Helga fram spurningunni Hvað búa margir á Íslandi?“ og fékk samstundis svör frá mörgum, 329 þúsund, sem var matið á þeim tíma.

Fangarnir voru að vonum ánægðir með spjaldtölvurnar sínar.

Takawiri-eyja

Að lokinni heimsókn í fangelsið var komið að lítilli eyju í Viktoríuvatni, Takawiri. Á eyjunni eru engir bílar, ekkert net og heimili hafa ekki rafmagn. Efsti bekkur grunnskólans var valinn til að taka þátt í verkefninu, en í þeim bekk er 31 nemandi. Á þaki skólans eru sólarrafhlöður og því er unnt að hlaða fartölvur og setja þjóninn í samband.

Nemendur í efsta bekk Takawiri-grunnskólans með kennara sínum. Á þaki skólans má sjá sólarrafhlöðurnar.

Eftir örskamma stund voru nemendur komnir vel á veg með að leysa dæmi og fikra sig áfram í tölvuheiminum. Þannig vildu nokkrir nemendur læra efnafræði til viðbótar við stærðfræði og gerðu það með því að fletta upp í Wikipediu.

Rafmagn í skólanum er mjög óstöðugt enda sló því út þegar nemendur komu í síðari tímann, að kvöldi dags. Nemendur létu rafmagnsleysið ekkert á sig fá. Unga fólkið hélt einfaldlega sínu striki, las dæmin af tölvuskjánum og leysti þau síðan á blaði, með skjáinn sem lýsingu.

Nemendur létu myrkrið ekki á sig fá.

Fyrstu fréttir frá Takawiri eru afar jákvæðar: My students are using the tutor web daily. I have seen a remarkable improvement in their performance in mathematics“ (Benta Ouma, kennari við grunnskólann á Takawiri).

Háskóli í Maseno og menntaskóli í Banjika

Gunnar og Anna Helga hafa um nokkurra ára skeið átt í samstarfi við kennara í Maseno-háskóla í Kenía um þróun kennslukerfisins og hafa ferðast nokkrum sinnum áður til landsins til að prófa það og nota í kennslu. Siðasta heimsóknin var í Maseno-háskólann sem fær einn þjón, en fjórði þjónninn fer til Banjika-skólans í Tansaníu. Á báðum stöðum hafa nemendur aðgang að eigin tölvum eða snjallsímum.

Að lokum

Kennslukerfið tutor-web hefur einnig verið notað með góðum árangri í stórum námskeiðum í stærðfræðigreiningu og tölfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og við undirbúning nýnema fyrir nám á sviðinu. Gunnar og Anna Helga stunda rannsóknir tengdar notkun kerfisins. Spennandi verður að greina gögnin sem safnast saman í tengslum við Keníaverkefnið. 

Lesa má frekari fréttir af verkefninu á Facebook-síðu þess

Innan veggja fangelsisins í Naivasha þangað sem Gunnar og Anna Helga fóru.
Innan veggja fangelsisins í Naivasha þangað sem Gunnar og Anna Helga fóru.