Skip to main content
14. júlí 2017

Kári Stefánsson hlýtur William Allan verðlaunin

Bandaríska mannerfðafræðifélagið (ASHG) hefur sæmt Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, William Allan verðlaununum. Verðlaunin eru nefnd eftir bandarískum lækni, sem var brautryðjandi í rannsóknum á erfðafræði mannsins og eru þau æðsta viðurkenning félagsins. Þau eru veitt vísindamönnum sem þykja hafa skilað stóru og yfirgripsmiklu framlagi til rannsókna í mannerfðafræði. Kári tekur við verðlaununum á ársfundi félagsins, sem haldinn verður í Orlando í Florida, 18. október næstkomandi.

Kári Stefánsson stofnaði Íslenska erfðagreiningu árið 1996 með því sjónarmiði að gera umfangsmiklar erfðafræðirannsóknir á Íslandi, segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Í góðu samstarfi við Íslendinga hafi ÍE tekist að safna erfðafræðisýnum frá fleiri en 160.000 manns og leggja mikið af mörkum til aukinnar þekkingar á erfðafræði. Vinnan hefur orðið fyrirmynd svipaðra rannsókna í öðrum löndum, t.d. Breska lífbankans (UK Biobank) og „Við öll“ verkefnisins (All of Us Initiative) í Bandaríkjunum.

Auk þess að vera forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar er Kári Stefánsson prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Hann hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, t.d. verðlaun Evrópska erfðafræðifélagsins, Bandarísku Alzheimersamtakanna og verðlaunapening Evrópsku líf- og læknavísindasamtakanna.

Bandaríska mannerfðafræðifélagið var stofnað árið 1948 og er talið fremst allra fagfélaga í erfðafræði mannsins. Félagsmenn eru um 8000 og koma úr röðum vísindamanna, háskólakennara, lækna og hjúkrunarfræðinga sem fást við mannerfðafræði.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands