Skip to main content
21. júní 2016

Jónsmessuganga á vit álfanna í dag

"Tilvera álfa og huldufólks sem áþreifanlegra vera af holdi og blóði er umdeild og ósönnuð en ljóst er að hugmyndin um álfa og huldufólk er gömul meðal íslensku þjóðarinnar og lifir enn ágætu lífi þrátt fyrir að hafa tekið nokkrum breytingum í aldanna rás."

Þetta segir doktorsneminn Júlíana Þóra Magnúsdóttir, sem í dag leiðir álfagöngu að Helgufossi í Mosfellsdal. Í ferðinni mun Júlíana Þóra fræða göngumenn um álfa og þeir verða auk þess heiðraðir með dansi og söng.

Júlíana segir að hugmyndir um ýmiskonar dularverur, sem búi í náttúrunni og geri einstaka sinnum vart við sig, hafi verið útbreiddar í heimsmynd Norður-Evrópubúa fyrr á öldum en hafi víðast hvar látið undan síga eftir að vísindaleg heimsmynd ruddi sér til rúms á 20. öld.

"Það er helst á Íslandi og á Írlandi sem við finnum enn í dag dæmi um trú manna á slíkar verur," segir Júlíana Þóra sem er doktorsnemi í þjóðfræði við Háskóla Íslands.

Hist verður kl. 16 á einkabílum við skrifstofu Ferðafélags Íslands að Mörkinni 6. Áætlað er að gangan taki um 2-3 klukkustundir. Ágætt er að hafa með sér skjólgóð öt ef eitthvað ýrir úr lofti. Gangan er liður í samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands sem heitir Með fróðleik í fararnesti og er öllum ókeypis.

Júlíana Þóra segir að samkvæmt könnun á íslenskri þjóðtrú og trúarviðhorfum á árunum 2006 til 2007 telji um þriðjungur Íslendinga tilveru álfa og huldufólks óhugsandi eða ólíklega, þriðjungur telji hana mögulega og fjórðungur líklega eða vissa. "Þannig má segja að meirihluti Íslendinga sé þeirrar varkáru skoðunar að álfar og huldufólk séu kannski til, þ.e. meirihlutinn er ekki tilbúinn að útiloka tilveru þess þótt tiltölulega fáir telji tilveru þess vissa."

Júlíana Þóra bætir því við að samkvæmt sömu könnun telji 5% svarenda sig hafa séð álfa og huldufólk sem segi okkur að álfar og huldufólk séu enn viðeigandi túlkunarrammi fyrir nýja yfirnáttúrulega reynslu a.m.k sumra Íslendinga í upphafi 21. aldar.  "Þetta er þannig enn uppspretta nýrra sagna í þjóðsagnahefð Íslendinga."

Hvers vegna er álfatrúin sterk á Íslandi?
"Það er kannski eðlilegra að tala um menningarbundin viðhorf en trú þegar talað er um hugmyndir Íslendinga um álfa og huldufólk þar sem ekki er beinlínis um virka trúariðkun að ræða," segir Júlíana Þóra, þegar talið berst að álfatrú.

"Menningarbundin viðhorf eru hugmyndir og viðhorf sem við tökum í arf frá fyrri kynslóðum, t.d. öfum og ömmum, sem við treystum og berum virðingu fyrir, og berum síðan áfram til
komandi kynslóða í gegnum tungumálið, ættfræði, sögur, venjur og fleira."

Júlíana Þóra segir að þegar við upplifum atburði. eða verðum fyrir nýrri reynslu sem erfitt
er að útskýra með hliðsjón af því sem við getum kallað vísindalega heimsmynd, þá grípum við til þeirrar menningarbundnu sem við tókum í arf frá fyrri kynslóðum.

"Þannig má segja að við túlkum nýja reynslu sem við verðum fyrir í ljósi þeirra sagna sem við höfum áður heyrt um reynslu fyrri kynslóða samhliða því sem við sköpum nýjar sögur við endursögn reynslu okkar í hópi vina og fjölskyldu."

Að sögn Júlíönu á styrkur álfatrúarinnar á Íslandi núna sér líklega rætur í fyrrgreindum menningarbundnu viðhorfum, þ.e. sterkri stöðu sinni í sagnahefð fyrri kynslóða, ekki síst á þeim tímapunkti sem þjóðsagnasöfnun og útgáfa þjóðsagna stóð með sem mestum blóma á seinna skeiði 19. aldar og í byrjun 20. aldar.

"Sögur af huldufólki eru t.d. mjög stór hluti af þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar sem ber vinsældum sagnanna á 19. öld gott vitni. Útbreiðsla og vinsældir huldufólkssagna í íslenskri þjóðsagnahefð tengist síðan hugsanlega því að það hefur almennt mun jákvæðari birtingamynd en ýmsar aðrar yfirnáttúrulegar verur, svo sem draugar, útilegumenn og tröll, þar sem það gerði mönnum sjaldan neitt til miska sem ekki höfðu beinlínis til þess unnið."

Júlíana segir að þetta geri það að verkum að í torfbæjarsamfélagi fyrri tíðar hafi huldufólkssögur verið fremur meinlausar og hægt að skemmta börnum með þeim í rökkri torfbæjarins án þess að valda myrkfælni eða hræðslu, ólíkt t.d. draugasögum sem margir reyndu að forðast að segja börnum ef marka megi heimildir um sagnaskemmtanir í baðstofum torfbæjarsamfélagsins.

"Að lokum má velta fyrir sér hvort mikil útbreiðsla huldufólkssagna í íslenskri sagnahefð hafi að einhverju leyti haldist í hendur við hefðbundnar hugmyndir um staðsetningu þessara vera í umhverfinu. Meintar huldufólksbyggðir eru og voru venjulega í næsta nágrenni við byggð ból
ólíkt tröllum og útilegumönnum sem héldu sig utan alfaraleiðar inn á hálendinu samkvæmt hefðinni. Huldufólk hafði því mun meiri nærstöðu við fólk af báðum kynjum og á öllum aldri en flestir aðrir dularvættir sagnahefðarinnar og voru þannig heppilegur túlkunarrammi nýrrar dulrænnar reynslu og sagnasköpunar mun víðari hóps fólks en hinar verurnar."

Hvað verður rætt í göngunni?
Aðspurð um sjálfa gönguna segist Júlíana Þóra ætla m.a. að ræða almennt um Jónsmessuna, hlutverk hennar sem jaðartímabils þar sem allt geti gerst og benda á ýmsar hugmyndir manna um það sem gerst getur á Jónsmessu.

"Síðan ætla ég að ræða aðeins um þróun íslenskrar huldufólkstrúar og elstu heimildir um hana, og um það hvað er líkt og hvað er ólíkt með huldufólkinu okkar og huldufólki nágrannalandanna. Þá ætla ég að tæpa á helstu tegundum og efnisflokkum íslenskra huldufólkssagna. Við Hrafnaklett eða Helguhól ætla ég síðan að ræða aðeins um tengsl sögunnar um Helgu Bárðardóttur við írskar sögur og þjóðtrú en hún var í lok ævidaga
sinna talin hafa flutt inn í Helguhól og þannig gerst huldukona."