Skip to main content
27. apríl 2015

Jöklar í Vestur-Kanada minnki um 70% á öldinni

""

Sjötíu prósent af jöklum í Bresku-Kólumbíu og Alberta í Kanada gætu verið horfnir fyrir næstu aldamót vegna hnattrænnar hlýnunar. Þetta sýnir ný rannsókn sem Alexander Jarosch, fræðimaður við Jarðvísindastofnun Háskólans, hefur unnið ásamt hópi vísindamanna við kanadíska háskóla. Bráðnun jöklanna gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir m.a.  vistkerfi, vatnsgæði og raforkuframleiðslu á svæðinu. Rannsóknin hefur vakið mikla athygli erlendra fjölmiðla.

Niðurstöður rannsóknanna voru kynntar í grein í vísindatímaritinu Nature Geoscience nýverið. Í greininni, sem ber yfirskriftina „Projected deglaciation of western Canada in the twenty-first century“, kemur fram að Alexander og samstarfsfélagar hafi þróað ný tölvulíkön sem þeir hafi nýtt til að spá með nákvæmari hætti fyrir um bráðnun jökla í vesturhluta Kanada, en þeir eru alls 17 þúsund talsins. Í hinum nýju líkönum er m.a. í fyrsta sinn tekið tillit til hreyfingar eða eðlisfræði jökla  á stóru svæði en áður hefur aðeins verið mögulegt að skoða hreyfingar einstakra jökla með þeim hætti. Í rannsókninni studdust vísindamennirnir einnig við myndefni af svæðinu, tölvulíkön og sviðsmyndir Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um útblástur gróðurhúsalofttegunda í heiminum, en slíkur útblástur er talinn höfuðorsök aukinnar hlýnunar loftslags á næstu áratugum. 

Með notkun áðurnefndra aðferða komust vísindamennirnir að því að hnattræn hlýnun ógni mjög jöklum í vesturhluta Kanada en að þeir muni þó hopa á mismunandi hraða. Þannig gætu jöklar í Klettafjöllunum, þar sem þurrara er, minnkað um allt að 90 prósent frá árinu 2005 og fram til aldamóta en jöklar í norðvesturhluta Bresku-Kólumbíu, þar sem rakara er, tapað um helmingi af massa sínum á sama tímabili. Líkanið gefur jafnframt færi á því að spá fyrir um breytingar á rennsli í ám á svæðinu á öldinni en gert er ráð fyrir að rennslið nái hámarki milli áranna 2020 og 2060 en minnki hratt eftir það. 

Jöklarnir í Bresku-Kólumbíu og Alberta eru afar mikilvæg uppspretta fyrir vatnsból  á svæðinu. Aukin bráðnun mun hafa áhrif á raforkuframleiðslu í vatnsaflsvirkjunum á svæðinu og sömuleiðis landbúnað beggja vegna landamæra Bandaríkjanna og Kanada. Enn fremur eru jöklarnir mikilvægt aðdráttarafl fyrir ferðamenn á svæðinu. Þá sé ekki síður alvarlegt að bráðnun jökla hafi áhrif á hækkun sjávarborðs sem aftur getur ógnað byggðum við strendur.

Rannsóknin sem fjallað er um í Nature Geoscience hefur staðið allt frá árinu 2007 en frá þeim tíma og fram til ársins 2009 starfaði Alexander sem nýdoktor við  University of British Columbia í Vancouver í teymi með Garry Clarke, sem er aðalhöfundur greinarinnar. Áður hafði hann lokið doktorsprófi í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands. Alexander og Garry hafa haldið áfram samstarfi sínu eftir að Alexander flutti aftur til Íslands og gekk til liðs við jöklafræðihóp Jarðvísindastofnunar Háskólans. Auk þeirra koma vísindamenn sem starfa við tvo aðra kanadíska háskóla að rannsókninni.

Alexander bendir á að hinar nýju aðferðir megi einnig nota til að meta bráðnun jökla í öðrum heimshlutum, þar á meðal afdrif íslenskra jökla á öldinni, og stefnir jöklafræðihópur Jarðvísindastofnunar Háskólans að því í náinni framtíð.

Rannsókn Alexanders og samstarfsmanna hefur vakið mikla athygli og hafa helstu stórblöð heimsins þegar fjallað um hinar áhugaverðu niðurstöður hennar:

Umfjöllun New York Times

Umfjöllun Washington Post

Umfjöllun Guardian

Mynd af Alexander Jarosch
jöklar
jöklar
Mynd af Alexander Jarosch
jöklar
jöklar