Skip to main content
10. febrúar 2017

Jöklar á Íslandi í enskri þýðingu

""

Bókin Jöklar á Íslandi eftir Helga Björnsson jöklafræðing hefur verið gefin út í enskri þýðingu Júlían D´Arcy, prófessors í enskum bókmenntum við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Enskur titill bókarinnar er The Glaciers of Iceland: A Historical, Cultural and Scientific Overview og útgefandi er Atlantis Press.

Bókin er byggð á áratuga rannsóknum Helga Björnssonar og samstarfsmanna hans við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og víðar. Bókin lýsir jöklum Íslands og sambúð þjóðarinnar við þá frá upphafi byggðar til okkar daga, hvernig jöklar hafa mótað landið og eytt. Bókin segir sögu þekkingaröflunar og skilnings á jöklum frá því fyrst var farið að rannsaka þá fram til nútímarannsókna. Rakin eru spor löngu horfinna jökulbreiða, hulunni svipt af landinu undir jöklum Íslands og greint frá líklegri framtíð þeirra. Helgi er heimsþekktur vísindamaður á sviði jöklafræði og hefur í áratugi rannsakað jökla og áhrif loftslagsbreytinga á þá. Ritverk Helga eru um 260 á löngum og farsælum vísindamannsferli, flest þeirra ætluð sérfræðingum og birt í ritrýndum fræðiritum.

Júlían hefur þýtt fjölda annarra verka, þar á meðal sjónvarpsleikrit, dægurlagatexta, barnabækur og skáldsögur. Nú vinnur hann að þýðingu söngleiksins Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason og skáldsögunnar Íslenskur aðall eftir Þórberg Þórðarson.

Nánari upplýsingar um The Glaciers of Iceland á Google books.

Helgi Björnsson jöklafræðingur