Háskóli Íslands

Íslendingaapp vekur gríðarlega athygli

Margir af stærstu fjölmiðlum heims hafa á undanförnum vikum fjallað um vinningslausnina  í samkeppni Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar um Íslendingaapp sem fram í apríl síðastliðnum.  Það er ekki síst svokallaður Sifjaspellsspillir í appinu sem vekur athygli fjölmiðla.

Liðið Sad Engineer Studios, sem skipað er þeim Arnari Frey Aðalsteinssyni, Hákoni Þrastar Björnssyni og Alexander Annas Helgasyni, nemendum í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, sigraði í samkeppninni um besta Íslendingaappið um síðustu helgi. Keppnin snerist um að þróa nýja lausn fyrir snjallsíma við notkun Íslendingabókar en tíu ár eru síðan Íslendingabók var opnuð á netinu og nota um 2500 manns síðuna á hverjum degi.

Frá því að úrslitin voru gerð kunn hefur lausn Sad Engineer Studios farið sem eldur í sinu um netheima og vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis. Appið býður upp á marga sniðuga möguleika, m.a. má sýna tölfræði um ætt notenda og yfirlit og áminningu um afmælisdaga ættingja. Það er hins vegar svokallaður Sifjaspellsspillir í forritinu sem vakið hefur mesta athygli. Með honum má smella tveim símum saman og komast eigendur símanna þá að því hversu skyldir þeir eru. Segja höfundar appsins að möguleikinn komi í veg fyrir að náskylt fólk eigi náin kynni og kynna hann undir slagorðinu „Bömpaðu í appinu áður en þú bömpar í bólinu“.

Þeir Arnar Freyr, Hákon Þrastar og Alexander Annas hafa haft í nógu að snúast síðustu daga og vikur við að svara fyrirspurnum erlendra fjölmiðla en meðal þeirra sem gert hafa appinu skil eru Breska ríkisútvarpið, bandaríska fréttastöðin CBS News, bresku blöðin The Independent og The Daily Mail, bandarísku tímaritin Slate og Cosmopolitan, Bloomberg Business Magazine, hinn danski Jótlandspóstur, kanadísku miðlarnir CBC og Toronto Sun, ástralska dagblaðið The Sydney Morning Herald og bresk útgáfa hins víðlesna netmiðils Huffington Post. Þá eru ótalin fjölmörg tækniblogg og -fréttasíður úti um víða veröld.

Appið má nálgast á neðangreindri slóð:
https://play.google.com/store/apps/details?id=is.ses.apps.islendingaapp

Þriðjudagur, 7. maí 2013 - 15:15
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is