Skip to main content
16. ágúst 2016

Is fish your wish? - BEST námskeið í samstarfi við HÍ

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands stendur dagana 16.-24. ágúst fyrir 2 eininga kynningarnámskeiði BEST-FISH – Is fish your wish? í samstarfi við Evrópsk nemendasamtök tækni- og verkfræðinema (Board of European Students in Technology, BEST, www.best.eu.org ).

Þátttakendur í námskeiðinu eru 25 talsins og eru frá hinum ýmsu löndum Evrópu og stunda nám í jafn ólíkum fögum og matvælaverkfræði, viðskiptafræði, geimverkfræði, jarðfræði og fleira. Markmið námskeiðsins er að kynna nemendur fyrir helstu fræðum um framleiðslu sjávarfangs, breytingum á gæðaþáttum, öryggi við framleiðslu, gæðastjórnun virðiskeðjunnar o.fl. Einnig verður farið í vísindaferðir í Sjávarklasann, til Landhelgisgæslunnar, Lýsis og í Brim til þess að nemendur fái að sjá og kynnast nokkrum af þeim margþættu hliðum framleiðslu á sjávarfangi sem finna má á Íslandi.

Kennarar sem koma að námskeiðinu eru þau dr. María Guðjónsdóttir, dósent MoN, Sigurjón Arason, prófessor MoN, Guðjón Þorkelsson, prófessor MoN og dr. Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Sæplasts og stundakennari við VoN.

Við bjóðum nemendur BEST velkomna í Háskóla Íslands. Nánari upplýsingar um námskeiðið má nálgast hjá umsjónarkennara námskeiðsins, Maríu Guðjónsdóttur (mariagu@hi.is ) eða hjá varaformanni BEST Reykjavík, Guðrúnu Svönu Hilmarsdóttur (gudrunsvana@BEST.eu.org ).

Stúlka stendur við mynd af fiski
Stúlka stendur við mynd af fiski