Skip to main content
28. febrúar 2017

Hvítuvötn Kentish á háskólatónleikum 1. mars

""

Anna Jónsdóttir, sópran, Ólöf Sigursveinsdóttir, selló, og Sophie Schoonjans, harpa, flytja Hvítuvötn, verk í sjö hlutum eftir Óliver Kentish við ljóð Ingimars Erlends Sigurðssonar, á háskólatónleikum miðvikudaginn 1. mars. Tónleikarnir hefjast kl. 12.30 og verða  í Kapellunni á annarri hæð Aðalbyggingar Háskóla Íslands.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir. 

„Hvítuvötn er verk í sjö hlutum fyrir selló, hörpu og sópran við fimm ljóð Ingimars Erlends Sigurðssonar. Ljóðin fjalla um lífið, sorgina, tárin, dauðann og trúna, og vatnið í sinni tærustu mynd. Áheyrendum er boðið í ljóðahljómgöngu þar sem Oliver hefur gefið ljóðum Ingimars Erlends nýjar víddir með fögru tónmáli og formum og áferðum sem auðga ljóðin og styrkja myndmál þeirra.“

Þetta segir Anna Jónsdóttir, einn flytjendanna á næstu Háskólatónleikum, en hún nam söng hjá Alinu Dubik við Nýja tónlistarskólann og lauk einsöngvaraprófi 2004. Þá hafði hún einnig stundað nám í tónlistarháskólanum í Búkarest hjá Mariu Slatinaru í eitt ár.  Sumarið 2010 tók Anna þátt í alþjóðlegu tónlistarsamstarfi á vegum Music Art Omi International í Ghent í New York-fylki en þar var hún gistilistamaður. Sumarið 2012 tók hún þátt í tónlistarhátíðinni SonicExchange í Kassel í Þýskalandi. Síðustu ár hefur Anna verið virk í íslensku tónlistarlífi með fjölda einsöngstónleika og þátttöku í stærri verkefnum. Hún hefur líka tekið þátt í ýmsum verkefnum í Evrópu og Bandaríkjunum. 

Anna syngur alls kyns tónlist, allt frá þjóðlögum og gamalli tónlist til frumflutnings á nýjum verkum sem og aríur, ljóð og hvað sem stendur hjarta hennar næst. Hún hefur enn fremur góða þekkingu á íslenskri tónlist og hefur haldið námskeið um íslensk þjóðlög. 

Anna hefur gefið út tvo hljómdiska, Móðurást sem inniheldur íslensk lög sem fjalla um móðurkærleikann og VAR með íslenskum þjóðlögum, sungnum án meðleiks. Diskurinn var hljóðritaður í Akranesvita og í lýsistanki í Djúpavík. Á tónleikaferðinni Uppi og niðri og þar í miðju fór Anna um landið og söng íslensk þjóðlög án meðleiks á 17 tónleikum á „sérstökum stöðum“, m.a. í vitum, hellum, úti í náttúrinni, í lýsistanki og í yfirgefnum verksmiðjum. 

Anna hefur undanfarin ár leitað markvisst að nýjum leiðum til tónsköpunar og söngiðkunar. Hún er annar helmingur Duo Mirabilis sem hefur í tólf ár starfað óslitið að ýmsum verkefnum og tónleikahaldi.

Ólöf Sigursveinsdóttir hóf kornung að læra að leika á selló. Að loknu námi hér heima var hún eitt ár fastráðinn hljóðfæraleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá hélt hún til Stuttgart þar sem hún innritaðist í einleikaradeild listaháskólans og út¬skrifaðist þaðan með einleikarapróf  árið 2001 og hlaut hæstu einkunn. Ólöf hefur haldið einleikstónleika hér heima og erlendis og tekið þátt í fjölmörgum tónlistarverkefnum víðsvegar í Evrópu. Hún hefur verið virk á sviði kammertónlistar. Þær Margrét Hrafnsdóttir sópransöngkona unnu saman að geisladiski með íslenskum þjóðlögum, Hjartahljóð, og hlaut hann afar góðar viðtökur. Árin 2005-2007 hlaut Ólöf styrk frá þýska ríkinu til að nema útvarpsfræði við tónlistarháskólann í Karlsruhe. Nú leikur Ólöf með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir á selló. 

Sophie Schoonjans lauk prófi í hörpuleik frá Conservatoire Royal de Musique í Brussel árið 1984 og ári síðar i kammertónlist. Frá árinu 1993 hefur hún tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi, hefur m.a. spilað í Íslensku óperunni, með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Sophie hefur einnig spilað sem meðleikari á nokkrum geisladiskum. Hún er hörpukennari hjá Tónskóla Sigursveins og Tónskólanum Do re mi og er jafnframt sjálfstætt starfandi hörpuleikari. Sophie er helmingur Duo Mirabilis.

Óliver Kentish fæddist í Lundúnum. Hann stundaði framhaldsnám í sellóleik við The Royal Academy of Music þar sem aðalkennari hans var Vivian Joseph. Árið 1977 fluttist hann til Íslands til þess að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur tekið virkan þátt í tónlistarlífinu hér, starfað sem hljóðfæraleikari, kennari, stjórnandi og tónskáld. Óliver er aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar áhuga¬manna og listrænn leiðtogi hennar. 

Óliver hefur einkum samið kammertónlist en hefur þó undanfarið snúið sér að söng¬lögum í ríkara mæli. Af stærri verkum hans má nefna Kantötu fyrir Skálholt fyrir kór, einsöngvara, óbó, básúnu, orgel og strengi við texta úr Gamla testamentinu og Lilju Eysteins munks. Árið 1993 pantaði breska ríkisstjórnin verk hjá Óliver sem breska þjóðin gaf þeirri íslensku í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins. Verkið, Mitt fólk, var tileinkað frú Vigdísi Finnbogadóttur. Það var frumflutt af Michael Jóni Clarke og Sinfóníuhljómsveit Íslands í september 1994. Óliver hefur unnið til verðlauna fyrir verk sín og hann hefur þrívegis verið staðartónskáld á sumartónleikunum í Skálholti þar sem verk hans hafa verið frumflutt. Hvítuvötn voru samin 2011 fyrir Önnu Jónsdóttur.

Ingimar Erlendur Sigurðsson var blaðamaður og ritstjóri um skeið en hefur lengstum helgað líf sitt ritstörfum. Hann er afkastamikið ljóðskáld en einnig hafa komið út eftir hann smásögur og skáld-sögur. Ljóð hans eru meitluð og myndræn og fjalla oftar en ekki um samband hans við guð. Nýjasta bók hans, Ljóðdómur, er mikið verk í tveimur bindum, myndskreytt af höfundi með 84 myndum. Bókin er eins konar ljóðævisaga. 

Sophie Schoonjans, Anna Jónsdóttir og Ólöf Sigursveinsdóttir