Skip to main content
15. ágúst 2017

Hvers virði er líf án sársauka?

Hvert er virði sársauka í peningum? Eða öllu heldur: Hversu mikils virði er það að losna algjörlega við sársauka fyrir þá sem þjást af þrálátum verkjum?

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild, og Þórhildur Ólafsdóttir, nýdoktor við Viðskiptafræðideild, velta þessari spurningu fyrir sér ásamt Edward C. Norton, prófessor við Háskólann í Michigan, í greininni „Valuing Pain using the Subjective Well-being Method,“ sem birtist nýlega á vef National Bureau of Economic Research (NBER).

Fyrir hagfræðinga er spurningin erfið, því ekki er svo einfalt að spyrja fólk hreint út hvað það mundi borga í beinhörðum peningum til að losna við verki. Fæstir eru nefnilega vanir því að hugsa um fjárhagslegt gildi sársauka. Fólki er tamara tungutak á borð við það að heilsan sé ómetanleg þótt hagfræðingar telji það þó ekki vera.

Rannsökuð voru gögn frá rúmlega 22.000 Bandaríkjamönnum, sem höfðu tekið þátt í heilbrigðisrannsókn á árunum 2008-2014. Þar voru þátttakendur spurðir þriggja lykilspurninga:

  • Hversu ánægður ertu með lífið almennt?
  • Hversu miklar tekjur varstu með undanfarið ár?
  • Þjáist þú oft af verkjum?

Auk þess voru þátttakendur spurðir annarra spurninga sem mikilvægt er að hafa stjórn á í greiningunni, en skipta minna máli þegar grunnhugmyndin er reifuð.

Út frá svörum við spurningunum má áætla í grófum dráttum hversu háa fjárhæð manneskju með stöðuga verki vantar aukalega til að ná svipuðum eða sömu lífsgæðum og heilbrigð manneskja. Á móti má áætla hversu háa fjárhæð heilbrigð manneskja þyrfti að missa til að lífsgæði hennar jöfnuðust á við þau hjá sambærilegri manneskju sem þjáist af verkjum.

Samkvæmt rannsókn Tinnu Laufeyjar og Þórhildar kostar sársaukalaust líf frá u.þ.b. 6000 til 15.000 króna á dag, eða um 2 - 5,5 milljónir króna á ári. Spurningin er því hversu margir væru tilbúnir að fórna einhverju sem hugsanlega jafngildir árslaunum til að lifa án verkja og sársauka?

Svörin eru þau að því meiri sem sársaukinn er, því meira eru menn tilbúnir að borga til að losna við hann. Og því hærri sem árslaunin eru, því meira vilja einstaklingar borga til að losna við kvalirnar.

Rannsóknin er þó takmörkuð við fólk eldra en 50 ára. Niðurstöðurnar gætu e.t.v. orðið aðrar ef yngra fólk yrði tekið með í reikninginn. Tinna undirstrikar þó stóra bilið milli raunverulegs lyfjakostnaðar og þess sem fólk virðist vera tilbúið að borga til að losna við verkina.

Grein Tinnu, Þórhildar og Edwards má lesa á vef NBER.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórhildur Ólafsdóttir