Skip to main content
9. mars 2015

Hugljómun á Hugvísindaþingi

""

Um 150 fyrirlestrar um spillingu, réttlæti, náttúruna, líkamann, máltöku, táknmál, íslenskukennslu, sauðaþjófa, listir og margt fleira verða í boði á Hugvísindaþingi 2015 sem fram fer dagana 13. og 14. mars í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Í tilefni af ári ljóssins á vegum Sameinuðu þjóðanna verður þingið helgað ljósinu. 

Alls verður á fjórða tug málstofa í boði á Hugvísindaþingi að þessu sinni og líkt og dagskrá þingsins sýnir er hugvísindum ekkert mannlegt óviðkomandi. Þingið hefst föstudaginn 13. mars kl. 12:30 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og við setninguna flytur Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn, fyrirlesturinn „Dýrðlegar sýnir - nokkrar birtingarmyndir norðurljósanna í máli og myndum“. Þorvarður hefur undanfarna vetur leitast við að fanga norðurljósin á mynd auk þess að skoða lýsingar á þeim í margvíslegum íslenskum textum. Fyrirlestrinum lýkur með stuttmynd þar sem norðurljósin eru í aðalhlutverki.

Að því loknu taka við málstofur og varir dagskráin til kl. 16:30 laugardaginn 14. mars. Fjallað verður um ljósið í heilum málstofum og einstökum fyrirlestrum þar sem umfjöllunarefnið spannar allt frá vísindasögu ljóssins til eterfræða og ljósgjafa í hýbýlum forfeðranna. Í öðrum málstofum verður til að mynda fjallað um spillingu, réttlæti, náttúruna, líkamann, máltöku barna, táknmál, ensku á Íslandi, íslenskukennslu á Íslandi, sjálfsmynd og þjóðerni, sagnfræði nútímans, sauðaþjófa og aðra misindismenn, bókmenntir og listir frá ótal sjónarhornum að ógleymdum endalokafyrirlestrinum. Samhliða þinginu heldur Írsk-íslenska rannsóknanetið í minnisfræðum málþing undir yfirskriftinni Vandinn við minnið (The Trouble with Memory). 

Dagskrá þingsins má nálgast á heimasíðu Hugvísindastofnunar og kynning á málstofum hefur einnig farið fram á Fasbókarsíðu stofnunarinnar og Twitter.

Þingið er  öllum opið og aðgangur er ókeypis.

Þema Hugvísindaþings að þessu sinni er ljósið í tilefni af ári ljóssins hjá Sameinuðu þjóðunum.
Norðurljós