Skip to main content
19. júní 2016

Hornsteinn lagður að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

""

Í dag, 19. júní á réttindadegi kvenna, var lagður hornsteinn að húsi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við hátíðlega athöfn. Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu hornstein að byggingunni og fluttu stutt ávörp. Karlakórinn Fóstbræður söng og athöfninni stjórnaði Auður Hauksdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar.

Byggingin mun hýsa Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum UNESCO. Þar verður starfrækt fræðslu- og upplifunarsetur og í húsinu er aðstaða fyrir fyrirlestra-, ráðstefnu- og sýningarhald, vinnuaðstaða fyrir erlenda gestafræðimenn og fyrir kennslu og rannsóknir í erlendum tungumálum. Þar verður einnig Vigdísarstofa, tileinkuð Vigdísi Finnbogadóttur, þar sem hægt verður að fræðast um líf hennar og störf. Fjölmargir innlendir og erlendir aðilar hafa stutt verkefnið með myndarlegum fjárframlögum.   

Í ræðu sinni sagði Vigdís Finnbogadóttir að hún væri „afar stolt af því að Íslendingar, sem búa við það lán að hafa tekist að varðveita aldagamalt tungumál sitt, skuli með byggingu þessa húss geta minnt á ómetanlegt gildi tungumála heimsins með þá visku sem þau geyma.“ Hún nefndi að þetta ævintýri, sem hér væri að verða að veruleika, hafi átti upphaf sitt um aldamótin síðustu, á 90 ára afmæli Háskóla Íslands þegar framsýni réði því að mynduð var við Háskóla Íslands sérstök tungumálastofnun, sem héldi utan um öll þau erlendu tungumál sem kennd eru við Háskóla Íslands. Vigdís sagði sterka stofnun þarfnast eigin húsnæðis og „svo sem sjá má á þessari stundu hefur stofnunin eflst og dafnað og ég vil fá að þakka öllum þeim aðilum sem af einhug hafa unnið að þeim áfanga sem við erum nú vitni að.“

Í máli Jóns Atla Benediktssonar rektors kom fram að hús Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur skipti gríðarlega miklu máli fyrir rannsóknir og kennslu í erlendum tungumálum og menningu og ætti eftir að verða mikil lyftistöng fyrir menningarstarf á Íslandi. Þar yrði þróttmikill vinnustaður og húsið viðkomustaður innlendra og erlendra gesta. Húsið væri til marks um metnað Háskóla Íslands og margra annarra til að efla þau fræði sem stuðluðu að farsælum samskiptum á erlendum tungum og aukinni vitund um mikilvægi tungumála fyrir menningu alls mannkyns. Rektor sagði að byggingin yrði vettvangur alþjóðlegrar samvinnu og með henni og samstarfinu við UNESCO sköpuðust einstök tækifæri fyrir Íslendinga til að láta til sín taka á þessu sviði og stuðla þannig að vexti og viðgangi tungumála og fjöltyngis á heimsvísu.

Rektor þakkaði Vigdísi Finnbogadóttur fyrir mikilvægt framlag hennar, eljusemi og einarðan áhuga; án hennar væri hvorki hús né hornsteinn. Rektor sagði starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands vera fulla þakklætis í garð Vigdísar og stolta af því að mega telja hana til háskólasamfélagsins.

Fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin 8. mars 2015, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, af Vigdísi Finnbogadóttur, Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra og Kristínu Ingólfsdóttur, fv. rektor. Það þótti því einkar viðeigandi að leggja hornsteininn 19. júní, þegar kosningaréttar íslenskra kvenna er minnst. Arkitektar að húsinu eru vinningshafar í hönnunarsamkeppni, sem fram fór árið 2012, en að tillögunni stóðu þeir Gunnlaugur Magnússon, Haraldur Örn Jónsson, Hjalti Parelius, Hjörtur Hannesson og Kristján Garðarsson frá arkitektastofunni arkitektur.is. Áætlað er að byggingin verði formlega tekin í notkun á vordögum 2017. 

Sjá nánar: www.vigdis.hi.is

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu hornstein að byggingunni.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu hornstein að byggingunni og fluttu stutt ávörp. Karlakórinn Fóstbræður söng og athöfninni stjórnaði Auður Hauksdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu hornstein að byggingunni.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, lögðu hornstein að byggingunni og fluttu stutt ávörp. Karlakórinn Fóstbræður söng og athöfninni stjórnaði Auður Hauksdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar.