Skip to main content
25. febrúar 2015

Hörkufjör og fræðsla á Háskólatorgi

Háskólatorg mun iða af lífi á Háskóladeginum 28. febrúar þegar þrjú af fimm fræðasviðum Háskóla Íslands kynna þar námsframboð sitt og bjóða upp á fjölbreytta viðburði og fræðslu fyrir gesti og gangandi. Kennsla í endurlífgun, handtökin á skurðstofunni, stærsta gestabók Íslandssögunnar og hæfileikaríkir stúdentar á tónlistarsviðinu er aðeins brot af því sem bera mun fyrir augu gesta á torginu.

Háskóladagurinn hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem árlegur kynningardagur háskóla landsins og býður Háskóli Íslands sem fyrr landsmönnum öllum í heimsókn á laugardaginn kemur, 28. febrúar, milli klukkan 12 og 16.

Fulltrúar þriggja fræðasviða Háskóla Íslands, Félagsvísindasviðs, Heilbrigðisvísindasviðs og Menntavísindasviðs, verða með sína námskynningu á annarri hæð Háskólatorgs og geta gestir bæði forvitnast um grunn- og framhaldsnám á sviðunum þremur. Enn fremur munu nemendur og kennarar á Hugvísindasviði kynna námsleiðir á sviðinu í Aðalbyggingu og bjóða upp á skemmtilega dagskrá, og í Öskju, þar sem deildir Verkfræði- og náttúruvísindasviðs verða, fer fram kynning á bæði námi og starfsemi sviðsins, bæði á göngum hússins og í rannsóknastofum.

Hundruð námsleiða á Háskólatorgi
Félagsvísindasvið er fjölmennasta fræðasvið skólans en undir það heyra sex deildir með ótal námsleiðir: Félags- og mannvísindadeild, Félagsráðgjafardeild, Hagfræðideild, Lagadeild, Stjórnmálafræðideild og Viðskiptafræðideild. Fulltrúar frá öllum deildum verða á svæðinu og svara spurningum spurningum um allt milli himins og jarðar – eða því sem næst.

Þeir sem hyggja á kennara-, þroskaþjálfa-, uppeldisfræði- eða tómstundafræðinám finna öll svör við sínum spurningum hjá fulltrúum Menntavísindasviðs á Háskólatorgi en undir sviðið heyra Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild, Kennaradeild og Uppeldis- og menntunarfræðideild.

Enn fremur munu fulltrúar allra sex deilda Heilbrigðisvísindasviðs bjóða gestum upp á fjölbreytta kynningu og fræðslu á Háskólatorgi. Á Litla torgi, hinni nýju viðbyggingu Háskólatorgs verður sem sagt bæði hægt að ná tali af nemendum og kennurum við Hjúkrunarfræðideild, Lyfjafræðideild, Læknadeild, Matvæla- og næringarfræðideild, Sálfræðideild og Tannlæknadeild. Einnig verður kynning á þverfaglegum námsbrautum sem tengjast sviðinu, talmeinafræði og lýðheilsuvísindum, á sama stað.

Fulltrúar fjögurra deilda á Félagsvísindasviði og Heilbrigðisvísindasviði munu enn fremur svara spurningum um A-prófin svokölluðu sem notuð verða í deildunum til að taka inn nemendur í haust.

Endurlífgun, heilsuráð og Krukkuborg
Á Háskólatorgi verður líf og fjör frá upphafi til enda Háskóladagsins og munu hjúkrunarfræðinemar m.a. sjá um að halda lífi í fólki með endurlífgunarkennslu með áherslu á hjartahnoð. Heilsutorg háskólanema býður upp á ávexti og leik með heilsuráðum og þá verður hægt að rýna í agnir og smáhluti í smásjá hjá fulltrúum lífeindafræði og lyfjafræði. Hinn landsþekkti skurðlæknir Tómas Guðbjartsson mun ásamt nemendum Læknadeildar gefa gestum kost á að upplifa stemmninguna á skurðstofu auk þess sem ýmis sýni úr Krukkuborg Læknadeildar verða til sýnis. Þá bjóða fulltrúar næringarfræðinnar upp á mælingu á líkamsástandi og líkamsþyngdarstuðli og nemendur og kennarar úr sjúkraþjálfun kynna námið og verða með ýmsan búnað sem notaður er til að meta líkamsstarfsemi og hreyfingu mannsins.

Enn fremur stefna nemar í tómstunda- og félagsmálafræði á Menntavísindasviði á met með stærstu gestabók Íslandssögunnar sem verður í stærð A3 og gefst gestum færi á að kvitta í hana.

Fulltrúar Félagsvísindasviðs munu enn fremur velta ýmsum spurningum upp, t.d.: Á að leggja sæstreng til Bretlands? Er metanvæðing ávinningur fyrir alla eða bara prump? Er Bitcoin alvöru peningur? Getur ilmur verið markaðstæki? Stjórna stjórnendur starfsánægju? Á að framleiða snjó í Bláfjöllum? Gagnast húmorinn fyrirtækjum? Er samband milli vinnuslysa og hagsveiflna?

Á 2. hæð á Háskólatorgi verða einnig fulltrúar frá Skrifstofu alþjóðasamskipta og Náms- og starfsráðgjöf. Jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands verður á staðnum, Jafnréttisnefnd, Ráð um málefni fatlaðs fólks, Q - félag hinsegin stúdenta og Femínistafélag Háskóla Íslands.

Stanslaust stuð í Stúdentakjallaranum
Hæfileikafólk úr hópi nemenda Háskóla Íslands mun ekki láta sitt eftir liggja á Háskóladeginum og m.a. halda uppi stuðinu í hinum geysivinsæla Stúentakjallara á fyrstu hæð Háskólatorgs. Meðal þeirra sem troða upp eru Húsbandið, Blúsrokkbandið Johnny And the Rest, Maurice & Friends, Rebekka Sif og BíBí og Blakkát auk þess sem boðið verður upp á dægurlagadúetta og söngleik nemenda.

Háskóli Íslands verður hins vegar ekki eini háskólinn með kynningu á Háskólatorgi því Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri með námskynningu á 1. hæð torgsins og Listaháskóli Íslands verður þar einnig ásamt Keili sem kynnir sína landsþekktu háskólabrú. Tæknifræðinám Keilis verður hins vegar kynnt í Öskju.

Sprengjur, dans og lifandi vísindi í Háskólabíói
Það verður einnig nóg um að vera fyrir alla fjölskylduna í Háskólabíói en þar munu félagar úr Sprengjugengi Háskóla Íslands, sem er fyrir löngu orðið landsþekkt, verða með kraftmiklar og litríkar sýningar í sal 1. Sýningarnar verða kl. 13.00 og 14.30 og er gott að koma tímanlega til að tryggja sér sæti. 

Háskóladansinn mun enn fremur sýna listir sínar og boðið verður upp á Vísindabíó í salnum á undan og eftir sýningum Háskóladansins og Sprengjugengisins. Þá verður ógleymanlegt japanskt shamisen-tónlistaratriði í bíóinu.

Auk þess verður Vísindasmiðjan sívinsæla opin frá 12-16 í Háskólabíói. Þar getur öll fjölskyldan kynnt sér undur vísindanna með lifandi hætti enda er þar fléttað saman leik og ljóma vísindanna.  

Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst verða með námskynningar í húsakynnum Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð og Listaháskóli Íslands kynnir allar sínar námsleiðir í sínum húsakynnum á Laugarnesvegi.
Boðið er upp á ókeypis strætóferðir á milli skóla.

Nánari dagskrá í einstökum byggingum háskólans er hér að neðan.

Búast má við fjölmenni á Háskólatorgi á laugardaginn kemur enda verðandi háskólanemar og aðrir gestir jafnan afar forvitnir um starfsemi Háskóla Íslands.
Búast má við fjölmenni á Háskólatorgi á laugardaginn kemur enda verðandi háskólanemar og aðrir gestir jafnan afar forvitnir um starfsemi Háskóla Íslands.