Skip to main content
5. febrúar 2016

Hönnunarkeppni verkfræðinema í aldarfjórðung

""

Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands verður haldin í 25. sinn á laugardaginn kemur, 6. febrúar, kl. 13. Keppnin verður eins og undanfarin ár hluti af UT-messunni sem fram fer í Silfurbergi í Hörpu um helgina.

Hönnunarkeppnin hefur fyrir löngu öðlast fastan sess, bæði í dagskrá Háskólans ár hvert en ekki síður á RÚV sem hefur um árabil tekið keppnina upp og sýnt í sjónvarpinu. Engin undantekning verður á því í ár.

Markmið keppninnar er sem fyrr að hanna faratæki sem farið getur yfir fyrir braut og leyst ýmsar þrautir á leið sinni að endastöð. Stig eru gefin fyrir hverja leysta þraut en myndband af brautinni má sjá á Facebook-síðu keppninnar.

Til að fá fullt hús stiga þarf farartækið að þrýsta á takka vinstra megin á brautinni. Ef ýtt er á takkann detta fjórar borðtenniskúlur úr röri fyrir ofan tækið. Farartækið þarf að grípa kúlurnar og koma þeim fram hjá tveimur veggjum á brautinni og skila í trekt við hægri hlið brautar. Þarnæst þarf að komast fram hjá regnhliði eb hægt er að keyra yfir stálgrind sem er beint undir hliðinu. Þegar komið er fram hjá því þarf farartækið að þrýsta á takka á hægri hlið brautarinnar sem gefur frá sér hljóð. Brautinni lýkur svo með því að ýta þarf golfkúlu inn um gat á vegg við enda hennar og við það kviknar ljós.

Marel og Nýherji, bakhjarlar keppninnar, veita vegleg peningaverðlaun til efstu liða:

1. sæti - 400.000 kr. 

2. sæti - 300.000 kr.

3. sæti - 200.000 kr.

Frumlegasta hönnun - 100.000 kr.

Þrettán lið eru skráð til leiks að þessu sinni og í þeim eru 30 karlar og fjórar konur. Að minnsta kosti einn þátttakandi í hverju liði þarf að vera í Háskóla Íslands. Keppnin er sem fyrr segir í Silfurbergi í Hörpu og hefst hún kl. 13 en búast má við að henni ljúki um kl. 15. Ókeypis er á keppnina og er hún öllum opin. Í tilefni 25 ára afmælisins verður enn fremur boðið upp á afmælisköku í hléi keppninnar.

Hluti af keppnisbraut úr Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands.
Hluti af keppnisbraut úr Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands.