Skip to main content
23. mars 2017

Höfum allt sem einkennir góð menntakerfi

""

„Sóknarfærin liggja í styrkleikum okkar menntakerfis. Börnunum okkar finnst gaman í skólunum og flestum þeirra líður vel. Þau upplifa minni stríðni en jafnaldrar á Norðurlöndum, bera meiri virðingu fyrir kennurum sínum, neyta síður áfengis- og vímuefna og skrópa sjaldnar. Þetta er árangur sem má að stórum hluta rekja til vinnubragða í skólum þótt erfitt sé að setja fingur á hvað það er nákvæmlega sem hefur skilað árangri. Á Íslandi er t.d. rík áhersla lögð á vellíðan barna, það kemur skýrt fram í opinberum skólastefnum og í samræðum við kennara og skólastjóra,” segir Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent í menntunarfræðum við Menntavísindasvið. Hún hélt erindi í fundaröð um niðurstöður PISA í síðustu viku ásamt Almari M. Halldórssyni, sérfræðingi hjá Menntamálastofnun. Þar var sjón­um beint að einkennum skóla hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum og þau borin sam­an við til­tekið fyr­ir­mynd­ar­menntakerfi sem skilgreint hefur verið af OECD. Norrænu ríkin koma vel út í þessum samanburði og trónir Ísland þar á toppnum.

Jöfnuður, fagmennska, samstarf og samvirkni

Mikið hefur verið rætt um slæma útkomu íslenskra nemenda í PISA-prófinu allt frá síðustu aldamótum. Íslendingar búa í fyrirmyndarmenntakerfi þar sem börnum virðist líða vel en þrátt fyrir það náum við ekki nægilega góðum árangri. „Nokkrir fræðimenn hafa verið að greina menntakerfi þjóða sem ná góðum árangri í alþjóðlegum mælingum. Í stuttu máli má draga niðurstöður þeirra saman í fjögur atriði sem öll eru jafn mikilvæg. Í fyrsta lagi skiptir höfuðmáli að allir hafi jafnan rétt til náms. Í öðru lagi er áhersla á mikla fagmennsku í kennslu, stjórnun, stefnumótun og stuðningskerfum í öflugum menntakerfum. Góður árangur byggist á gæðakennslu í hverri einustu skólastofu landsins og til að svo megi verða þarf að skapa kennurum umhverfi sem gerir þeim kleift að taka gæðamálin í sínar hendur. Í þriðja lagi má nefna samstarfsmenningu innan og á milli skóla og skólastiga. Kennsla er gríðarlega flókið verkefni og því sinnir engin einn svo vel sé. Margar rannsóknir bæði hér landi og erlendis benda til að í skólum þar sem ríkir samstarfsmenning og sameiginleg ábyrgð allra starfsmanna næst betri árangur, meiri gróska og meiri starfsánægja. Að lokum má nefna mikilvægi samvirkni í kerfinu sem felur í sér að menn hafi sammælst um áherslur á milli einstakra stiga kerfisins. Sé þessi samvirkni ekki til staðar er hætta á að umbætur á einu sviði vinni gegn umbótum á öðru,“ bendir Anna á. Við snúum okkur því næst að mannauðnum í skólunum, sjálfum kennurunum.

Góð grunnmenntun og stuðningur við nýútskrifaða kennara

Frá árinu 2012 hefur kennaranám á Íslandi verið fimm ár sem er svipað og annars staðar á Norðurlöndum. „Grunnmenntun kennara var lengi vel styttri en í nágrannalöndum og þótt nú sé búið að lengja hana gengur hægt að hækka menntunarstig kennara, m.a. vegna lítillar nýliðunnar í stéttinni. Menntunarstig stjórnenda er jafnframt lægra hér á landi en víða annars staðar. Í nýrri úttekt Evrópumiðstöðvar um sérkennslu á stöðu skóla án aðgreiningar benda skýrsluhöfundar á að einungis um helmingur stjórnenda í leik, grunn-, og framhaldsskólum sé með framhaldsmenntun í stjórnun og enn færri með meistaragráðu sem þó er nú krafist af kennurum. Það er ástæða til að gera betur því farsælt skólastarf hvílir að stórum hluta á faglegri forystu og öflugum stjórnendum.“

Talið berst að stuðningi við nýútskrifaða kennara en í skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar, sem birt var fyrir skömmu, kemur fram að fjöldi brautskráðra kennara skilar sér ekki í skólana heldur leitar í aðrar atvinnugreinar. Anna tekur undir að þetta sé einn af þeim þáttum sem huga verði að. „Stuðningur við nýútskrifaða kennara hefur verið í hálfgerðu skötulíki fram til þessa. Formlega er ekki gert ráð fyrir sérstöku innleiðingarferli í starfið, nýr kennari tekur fulla ábyrgð frá fyrsta degi. Þó má taka fram að nýleg rannsókn á afdrifum fyrstu árgöngum kennara, sem útskrifuðust úr kennaranámi eftir að það var lengt í fimm ár, segir okkur að 93% grunnskólakennara var í kennslu á öðru ári eftir útskrift og 100% leikskólakennara. Langflestir voru ánægðir í starfi og ætluðu sér að vera áfram í kennslu.“

Takmarkaðir möguleikar til starfsþróunar

Líkt og fram hefur komið skiptir fagmennska og samstarf kennara miklu máli og stuðlar að betri námsárangri. „Fagmennska verður best tryggð með góðri grunnmenntun og stöðugri starfsþróun sem fer fram bæði utan vinnustaðar og sem hluti af daglegu starfi. Rannsóknir kennara á eigin starfi er öflug leið til að auka þekkingu og hæfni þeirra og bæta árangur nemenda. Þær hafa verið að færast í vöxt en eru enn of fátíðar.“

Hún segir að fagmennsku megi einnig byggja upp með trausti, að kennarar finni að þeim sé treyst sem fagfólki til að leysa þau mál sem þeim ber að leysa og að leitað sé til þeirra sem sérfræðinga. „Starfsánægja kennara er einnig mikilvæg í þessu samhengi en margar rannsóknir sýna fram á tengsl milli samstarfsmenningar og starfsánægju. Því meira samstarf, því meiri er starfsánægja og trú á eigin getu sem hefur verið talin mikilvæg forsenda fyrir farsælt skólastarf.“

Aðspurð hvað hafi farið úrskeiðis og sé líkleg skýring á slæmu gengi nemenda segir hún að því sé ekki einfalt að svara. „Ein skýringin sem haldið hefur verið á lofti er sú að flutningur á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga árið 1996 hafi haft áhrif. Að mörgu leyti var það jákvætt skref en aðstaða sveitarfélaga til að styðja sína skóla var þó afar misjöfn. Ábyrgð á starfsþróun kennara og stjórnenda var eitt af þeim verkefnum sem féll milli skips og bryggju. Möguleikar til starfsþróunar hafa verið takmarkaðir og ekki er ljóst hver ber ábyrgð. Starfsþróun getur falist í þátttöku í virku lærdómssamfélagi þar sem kennarar læra hver með öðrum og hver af öðrum í einlægum ásetningi að bæta árangur nemenda sinna á öllum sviðum. Miðað við þá þekkingu og þær upplýsingar sem við höfum ættum við að geta eflt menntakerfi okkar svo það geti orðið með því besta á heimsvísu,“ segir Anna Kristín að endingu.

Ljóst er að menntakerfi eru margbrotin og að mörgu er að hyggja. Áhugavert verður að fylgjast með ferli úrbóta á menntamálum hér á landi í náinni framtíð.

Upptöku af fundinum má nálgast hér.

Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent