Skip to main content
13. janúar 2017

Hlutverk evrópskra þjóðskálda í ljósi dýrlingadýrkunar

""

National Poets, Cultural Saints: Canonization and Commemorative Cults of Writers in Europe er titill á nýju fræðiriti eftir Jón Karl Helgason, prófessor við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands, og Marijan Dović, sérfræðing við Slóvensku bókmenntafræðistofnunina í Ljúblíana og dósent við Háskólann í Nova Gorica.

Í bókinni er því haldið fram að tiltekin skáld og listamenn hafi á okkar dögum svipað táknrænt hlutverk innan þjóðríkisins og trúarlegir dýrlingar hafa um aldir gegnt á vettvangi kirkjunnar. Bókin er afrakstur viðamikilla rannsókna á helgifestu menningarlegra þjóðardýrlinga í Evrópu sem höfundar hafa unnið að ásamt fleirum undanfarin ár en í þessu verki beina þeir einkum sjónum að þjóðskáldum nítjándu aldar, þar á meðal Jónasi Hallgrímssyni og France Prešeren. Afmarkaðir kaflar í bókinni byggjast líka á tveimur bókum sem Jón Karl hefur sent frá sér á íslensku en þær eru Ferðalok: Skýrsla handa akademíu (2003) og Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga (2013). National Poets, Cultural Saints kemur út hjá hollenska forlaginu Brill í ritröðinni National Cultivation of Culture sem Joep Leerssen ritstýrir.

Sjá nánar á vef Brill.

Jón Karl Helgason og kápa bókarinnar