Skip to main content
12. ágúst 2016

Hlutu styrk til þróunar á kennsluefni í geðhjúkrun

""

Alþjóðlegur hópur fræðimanna undir forystu Páls Bierings, dósents í geðhjúkrun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, hefur hlotið rúmlega 27 milljóna króna styrk (203 þúsund evrur)  til þess að þróa nýtt kennsluefni í geðhjúkrun, bæði stafrænt og í bókarformi. Verkefnið er unnið í samstarfi við sex erlenda háskóla.

Verkefnið hefur það markmið þróa nýtt kennsluefni og kennsluaðferðir í geðhjúkrun í samvinnu við notendur geðheilbrigðisþjónustunnar. Á síðustu árum hefur batastefnan og hugmyndin um valdeflingu rutt sér rúms í geðheilbrigðisþjónustu. Í því felst að notendur þjónustunnar séu virkir og ráðandi þátttakendur meðferð sinni. Í þessu verkefni felst sú nýlunda að útvíkka valdeflingu notenda þannig hún nái líka til menntunar þeirra sem í framtíðinni munu sinna geðheilbrigðisþjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að samstarf nemenda og þjónustuþega dregur úr fordómum. Með því að vinna kennsluefni á þennan hátt er því hægt að útskrifa hjúkrunarfræðinga sem eru betur í stakk búnir til að mæta þörfum notenda geðheilbrigðisþjónustunnar.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins, undir flokknum Samstarfsverkefni á háskólastigi. Samstarfsaðilar Páls í verkefninu koma frá eftirfarandi sex háskólum: Dublin City University og University College Cork á Írlandi, Hedmark University of Applied Science í Noregi, Hogeschool Utrecht í Hollandi, Turku University of Applied Sciences í Finnlandi og University of Canberra í Ástralíu.

Áætlað er að verkefnið hefjist nú í september og er það til tveggja ára.

Um Pál Biering

Páll Biering er dósent í geðhjúkrun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Páll stundaði meistara- og doktorsnám við University of Texas í Bandaríkunum. Hann lauk doktorsprófi í geðhjúkrun árið 2001 og fjallaði doktorsverkefni hans um unglingaofbeldi. Páll hóf störf við Hjúkrunarfræðideild árið 1998.

Sérsvið hans í kennslu og rannsóknum er árangur geðheilbrigðisþjónustu, geðheilsa unglinga, fíkn og heimilisofbeldi. Páll hefur birt fjölda greina og bókakafla um geðheilbrigði í innlendum og erlendum fræðitímaritum. Páll er einn af stofnendum Horatio, evrópskra samtaka geðhjúkrunarfræðinga og situr í sérfræðiráði samtakanna. Hann hefur einnig stýrt samtökum íslenskra geðhjúkrunarfræðinga og setið í stjórn sambærilegra norræna samtaka.

Páll er virkur í alþjóðlegu samatarfi og hefur m.a. stjórnað rússnesk-norrænum verkefnum á sviði kennslu í hjúkrunarfræði. Hann er eining sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi og hefur á hans vegum veitt flóttafólki og hjálparstarfsfólki sálfélagslegan stuðning bæði í Afríku og Grikklandi. 

Páll Biering
Páll Biering