Skip to main content

Hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

31. jan 2017

Sölvi Rögnvaldsson, BS-nemi í hagnýttri stærðfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, hlaut í dag Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands sem afhent voru á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Verðlaunin hlýtur Sölvi fyrir verkefnið „Áhættureiknir við meðhöndlun sjúklinga með mergæxli“ sem hann vann fyrir tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna síðastliðið sumar. 

Það var forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem afhenti Sölva verðlaunin að viðstöddu fjölmenni á Bessastöðum en þar á meðal voru aðstandendur fjögurra annarra verkefna sem einnig voru tilnefnd til verðlaunanna. 

Verkefni Sölva snerist um þróun áhættureiknis við meðhöndlun sjúklinga með mergæxli. Um er að ræða tölfræðilíkan sem aðstoðar lækna við að ákvarða meðferð sjúklinga með mergæxli, sem er alvarlegt krabbamein í beinmerg. „Líkanið notar upplýsingar um aldur, kyn og fyrirliggjandi sjúkdóma til að meta horfur sjúklingsins og hefur betra forspárgildi en sá áhættureiknir sem nú er notaður í blóðlækningum. Við þróun áhættureiknisins var notað umfangsmikið gagnasafn sem er einstakt á heimsvísu. Gögnin innihalda upplýsingar um sjúkdómsgreiningar og lifun ríflega 13.000 sænskra mergæxlissjúklinga á árunum 1985-2013,“ segir um verkefnið á vef Rannís sem heldur utan um verðlaunin.

Sölvi vann verkefnið í nánu samstarfi við Ingigerði Sólveigu Sverrisdóttur, lækni, doktorsnema við Læknadeild og meistaranema í hagnýtri tölfræði við Raunvísindadeild, en þess má geta að rætt er við þau um verkefnið í Tímariti Háskóla Íslands sem kemur út í næsta mánuði. Meðal þess sem Sölvi og Ingigerður hönnuðu til að gera áhættureikninn aðgengilegan blóðmeinasérfræðingum var vefsíða og iPhone-smáforrit og er stefnan að koma áhættureikninum í notkun um allan heim. Aðferðafræðina sem þróuð var í verkefninu mætti enn fremur nota til að smíða áhættureikna fyrir aðra sjúkdóma eins og bent er á á heimasíðu Rannís.

Leiðbeinendur Sölva í verkefninu voru Sigrún Helga Lund, dósent í líftölfræði við Háskóla Íslands, og Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við Læknadeild Háskóla Íslands.

Sem fyrr segir voru fjögur önnur verkefni, sem unnin voru á vegum Nýsköpunarsjóðs námsmanna sumarið 2016, tilnefnd til verðlaunanna og fengu þau sérstaka viðurkenningu á Bessastöðum í dag. Meðal þeirra var verkefnið „Ræktun smáþörunga, nýr íslenskur hátækniiðnaður” sem Bergþór Traustason, nemandi í verkfræðilegri eðlisfræði við Háskóla Íslands, og Tryggvi E. Mathiesen og Unnur Elísabet Stefánsdóttir, nemar í matvælafræði við Háskóla Íslands, stóðu að. Auk þess voru verkefnin „Framköllun fælniviðbragðs með sýndarveruleika“ og „Kortlagning taugabrauta sameinuð þrívíddarmódelum til stuðnings við undirbúning heilaskurðaðgerða“, sem nemendur við Háskólann í Reykjavík unnu, og „Hulda: Hljóð- og ljósskúlptúr“, sem nemandi við Listaháskóla Íslands vann, tilnefnd til verðlaunanna.

Um Nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið áður. Verðlaunin voru fyrst veitt 1996 og eru því nú veitt í tuttugasta og annað sinn.

Verðlaunin í ár eru bókasnagi frá fyrirtækinu AGUSTAV sem er húsgagnahönnunar- og framleiðslufyrirtæki rekið af hjónunum Gústavi Jóhannssyni og Ágústu Magnúsdóttur. Allir tilnefndir styrkþegar sjóðsins fengu auk þess viðurkenningarskjal undirritað af forsetanum.

Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins styrktu Nýsköpunarsjóð námsmanna við veitingu Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands í ár.

Sölvi Rögnvaldsson, BS-nemi í hagnýttri tölfræði við Háskóla Íslands, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við afhendingu Nýsköpunarverðlauna forsetans í dag.
Aðstandendur verkefnanna fimm sem tilnefnd voru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands ásamt forsetahjónunum á Bessastöðum í dag.
Sölvi Rögnvaldsson, BS-nemi í hagnýttri tölfræði við Háskóla Íslands, ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, við afhendingu Nýsköpunarverðlauna forsetans í dag.
Aðstandendur verkefnanna fimm sem tilnefnd voru til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands ásamt forsetahjónunum á Bessastöðum í dag.