Skip to main content
12. apríl 2016

HÍ upp um nær 50 sæti á lista yfir bestu háskóla heims

""

Háskóli Íslands er í 222. sæti yfir bestu háskóla heims samkvæmt matslista Times Higher Education World University Rankings 2015-2016 en ekki í kringum 270. sæti. Þetta kom í ljós nýverið þegar villa við útreikning á stöðu nokkurra háskóla á listanum uppgötvaðist. Skólinn færist jafnframt ofar á lista yfir bestu háskóla Norðurlanda.

Times Higher Education birti lista yfir bestu háskóla heims 2015-2016 í fyrrahaust og samkvæmt upphaflegu mati var Háskóli Íslands í 251.-275. sæti á listanum. Nánari útreikningar á stöðu skólans á þessu bili leiddu í ljós að skólinn var í um það bil 270. sæti.

Við mat á stöðu háskóla á listanum horfir Times Higher Education til fjölmargra þátta í starfsemi þeirra, þar á meðal rannsóknastarfs, áhrifa á alþjóðlegum vettvangi, kennslu og námsumhverfis. Forráðamenn listans höfðu samband við Háskóla Íslands nýverið og bentu á að gerð hefðu verið mistök við útreikning á nokkrum þessara þátta í fyrrahaust. Það hefði haft áhrif á stöðu nokkurra háskólastofnana á listanum, þar á meðal Háskóla Íslands. Hann væri í sæti 200-250, nánar tiltekið í 222. sæti listans. Hér er því um að ræða nærri 50 sæta stökk á listanum. Þessi tíðindi þýða einnig að Háskóli Íslands er núna í 13. sæti á lista yfir bestu háskóla Norðurlanda samkvæmt Times Higher Education.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fagnar niðurstöðunni og bendir á að í henni felist gríðarleg viðurkenning á þrotlausu og metnaðarfullu starfi starfsfólks og stúdenta: „Niðurstaðan er mikil viðurkenning fyrir alla þá sem starfa hér og nema. Þá má ekki gleyma einkar öflugum samstarfsaðilum innanlands og utan sem gera hann enn betri, s.s. Landspítalanum, Íslenskri erfðagreiningu, Hjartavernd, Matís og alþjóðlegum samstarfsháskólum,“ segir Jón Atli sem bendir jafnframt á að niðurstaðan sé mikilvæg fyrir orðspor Íslands og íslenskra háskóla.

Tímaritið Times Higher Education hefur í yfir áratug birt lista yfir 400 bestu háskóla heims og er hann einn áhrifamesti listi sinnar tegundar. Háskóli Íslands hefur verið á listanum allt frá aldarafmæli skólans árið 2011. Listann og grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu Times Higher Education. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.