Skip to main content
29. maí 2017

HÍ og Minnesota-háskóli fagna 35 ára samstarfsafmæli

""

Þrjátíu og fimm ára samstarfsafmæli Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla var fagnað í Háskóla Íslands í dag með endurnýjun samstarfssamnings skólanna og málþingi þar sem litið var yfir farinn veg og leitað frekari tækifæra til samstarfs. Minnesota-háskóli er elsti samstarfsskóli Háskóla Íslands.

Tíu manna sendinefnd frá Minnesota-háskóla kom hingað til lands í tilefni samstarfsafmælisins og mun í heimsókn sinni kynna sér starf Háskóla Íslands og eiga fundi með fulltrúum á ýmsum fræðasviðum innan skólans. Hópurinn tók þátt í veglegu afmælismálþingi sem haldið var í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands í dag undir yfirskriftinni „Celebrating 35 Years of a Prosperous Partnership: The University of Minnesota and the University of Iceland“. 

Málþingið hófst á því að Jón Atli Benediktsson og Eric W. Kaler, rektorar háskólanna, undirrituðu endurnýjaðan samstarfssamning milli skólanna. Hann kveður m.a. á um víðtækt samstarf um stúdenta-, kennara- og starfsmannaskipti. Tveir stúdentar frá hvorum skóla munu eiga þess kost að fara á milli skólanna á hverju ári en þeir sem fara frá Háskóla Íslands hafa fengið niðurfelld skólagjöld við Minnesota-háskóla og uppihaldsstyrk frá Val Björnson Foundation. Þess má geta að rúmlega 70 stúdentar hafa farið á milli skólanna frá upphafi samstarfsins. 

Skólarnir hafa jafnframt á síðustu árum eflt rannsóknasamstarf sitt og nær það m.a.  til hjúkrunarfræði, læknisfræði, upplýsingatækni á heilbrigðissviði, lýðheilsuvísinda og menntunarfræða. Á málþinginu í dag var litið yfir farinn veg í samstarfi skólanna og greint frá vel heppnuðu akademísku samstarfi um leið og rætt var um tækifæri til frekara samstarfs, m.a. á sviði verkfræði og tungumála. 

Fyrsti erlendi samstarfsskóli HÍ

Minnesota-háskóli var fyrsti erlendi skólinn sem Háskóli Íslands gerði tvíhliða samstarfssamning við og því má segja að samningurinn hafi markað upphaf að víðtæku alþjóðlegu samstarfi og umsvifum Háskóla Íslands. Fjölmargir starfsmenn Háskóla Íslands hafa sótt sér menntun við Minnesota-háskóla og þess má geta að hér á landi er starfrækt öflugt Hollvinafélag fyrrverandi nemenda við skólann. Jónína Ólafsdóttir Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands, er formaður samtakanna en hún er ein þeirra sem notið hafa styrks Val Björnson Foundation. Eins hefur Hekla-klúbburinn, Íslendingafélag í Minnesota sem starfað hefur óslitið frá árinu 1925, verið ötull stuðningsmaður samstarfsins og stutt við stúdenta sem farið hafa á milli skólanna. Klúbburinn, sem var upphaflega kvenfélag, er jafnframt elsta þjóðræknifélag Íslendinga í Norður-Ameríku.

Einnig hefur verið starfræktur sjóður við Minnesota-háskóla í nafni Carol Pazandak heitinnar, fyrrverandi prófessors í sálfræði við Minnesota-háskóla, sem gerir kennurum og starfsfólki Háskóla Íslands kleift að stunda rannsóknir eða vinna við Minnesota-háskóla. Upphaf samstarfs skólanna má rekja til heimsóknar Carol til Íslands en hún var einnig hvatamaður að stofnun og mótun náms í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. 

Ljóst er að mikilli fengur er að samstarfinu við Minnesota-háskóla en þar stunda hátt í 70 þúsund manns nám og er skólinn sem stendur í 53. sæti á matslista Times Higher Education World University Rankings yfir bestu háskóla heims.

Að málþingi loknu var gestum boðið að þiggja léttar veitingar á Litla Torgi með félögum úr Hollvinafélagi Minnesota-háskóla. Meðal þeirra sem þar tóku til máls voru staðgengill sendiherra Bandaríkjanna, Jill Esposito.  

Fulltrúar Háskóla Íslands og Minnesota-háskóla í Aðalbyggingu Háskólans við upphaf fundarhalda í morgun.
Eric W. Kaler og Jón Atli Benediktsson
Helga Jónsdóttir í pontu í hátíðasal
Þátttakendur í málþingi í Hátíðasal