Skip to main content
22. ágúst 2017

HÍ í fyrsta sinn á Shanghai-listanum yfir bestu háskóla heims

Háskóli Íslands hefur í fyrsta sinn komist á hinn virta Shanghai-lista yfir 500 bestu háskóla heims, en nýr listi fyrir árið 2017 var birtur í liðinni viku. Rektor greindi frá þessu á ársfundi Háskóla Íslands sem haldinn var í Hátíðasal skólans að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra í dag. Rektor segir þetta vera mikla viðurkenningu og undirstrika vaxandi styrk háskólans á alþjóðavettvangi.

Háskóli Íslands er í sæti 401-500 á Shanghai-listanum, en listinn ber formlega heitið Academic Ranking of World Universities (ARWU). Hann hefur verið birtur árlega frá 2003 og byggist á ítarlegu og óháðu mati samtakanna Shanghai Ranking Consultancy á yfir 1.200 háskólum um allan heim. Við matið er horft til sex meginþátta, þar á meðal fjölda vísindagreina í virtum fræðitímaritum, fjölda tilvitnana annarra vísindamanna í rannsóknir á vegum háskólans, frammistöðu háskóla út frá starfsmannafjölda og fjölda starfsmanna sem hljóta vísindaverðlaun fyrir framlag sitt til einstakra fræðagreina. 

Sú nýbreytni var tekin upp í ár að tilgreina einnig háskóla í sætum 500-800, en þar á meðal eru stofnanir sem eiga möguleika á að komast inn á listann yfir 500 bestu háskólana á næstu árum. 

Samhliða Shanghai-listanum yfir fremstu háskóla heims eru einnig birtir listar yfir árangur þeirra á einstökum fræðasviðum. Þar kemur m.a. fram að Háskóli Íslands er í 10. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði fjarkönnunar, sem er einstakur árangur. Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar. Fjarkönnunarrannsóknir ganga út á að þróa aðferðir til að draga fram upplýsingar úr fjarkönnunarmyndum ásamt því að safna og vinna úr fjarkönnunargögnum. Fjarkönnun er Íslendingum mikilvæg og hefur fjarkönnunartækni verið notuð hérlendis, t.d. við kortlagningu og eftirlit með gróðri og gróðurbreytingum, landnotkun og jöklabreytingum. Fjarkönnunarmyndir hafa einnig verið notaðar til að meta hita- og landhæðarbreytingar jarðhitasvæða og virkra eldfjalla auk eftirlits með hafís og hitastigi sjávar.

Háskólinn er enn fremur í 51.-75. sæti á sviði lífvísinda, í sæti 76-100 í rafmagns- og tölvuverkfræði og í 101.-150. sæti á fræðasviði jarðvísinda. Þá skila rannsóknir innan Háskóla Íslands skólanum í 201.-300. sæti á sviði klínískrar læknisfræði, í sæti 301-400 í lýðheilsuvísindum og líffræði mannsins og 401.-500. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði eðlisfræði. 

Shanghai-listinn er annar af tveimur virtustu og áhrifamestu matslistum yfir bestu skóla heims, en hinn er Times Higher Education World University Rankings. Háskóli Íslands hefur verið á lista Times Higher Education í sex ár í röð eða allt frá aldarafmæli skólans árið 2011. Háskóli Íslands er nú í 242. sæti í heiminum og í 15. sæti á meðal fremstu háskóla á Norðurlöndum samkvæmt mati Times Higher Education sem tekur til rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna á alþjóðlegum vettvangi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla.

Í ræðu sinni á ársfundi Háskóla Íslands í dag greindi Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, frá stöðu skólans á Shanghai-listanum. Þar sagði hann að Háskólinn hefði á að skipa afar hæfu og ósérhlífnu starfsfólki og stúdentum. Hin frábæra vinna þeirra og samstarfsaðila innanlands og utan hefði skilað skólanum inn á listann. Mjög mikilvægt væri að halda áfram að byggja á þessum árangri og því væri nauðsynlegt að tryggja fjármögnun Háskóla Íslands til langframa. Um 8-9 milljarða króna viðbótarfjármagn á ári þyrfti til að ná sambærilegri fjármögnun og háskólar annars staðar á Norðurlöndunum búa við. Til að mæta brýnustu þörfinni þyrfti að setja 1,5 milljarða króna í rekstur Háskóla Íslands strax til að efla starfsemina.

Harvard-háskóli í Bandaríkjunum telst besti háskóli heims samkvæmt mati Shanghai Ranking Consultancy en hann hefur trónað á toppi listans í 15 ár samfellt. Stanford-háskóli í Bandaríkjunum er í öðru sæti og Cambrigde-háskóli Bretlandi í því þriðja, en þess má geta að bandarískir og breskir háskólar eru í 19 af 20 efstu sætum listans. 

Listann Academic Ranking of World Universities yfir bestu háskóla heims og upplýsingar um grundvöll matsins má nálgast á heimasíðu Shanghai Ranking Consultancy.

Aðalbygging Háskóla Íslands