Skip to main content
24. ágúst 2016

HÍ hæst metinn en fær ekki nám í lögreglufræðum

""

Háskóli Íslands hlaut flest stig í mati á þeim háskólum sem sóttu um að taka við námi í lögreglufræðum en mun ekki hafa umsjón með því þar sem mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri.  

Samþykkt var fyrr á þessu ári að færa nám í lögreglufræðum á háskólastig og verður Lögregluskóli ríkisins því lagður niður. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Ríkiskaupum að auglýsa eftir umsóknum um að taka við lögreglufræðanáminu og bárust gögn frá fjórum aðilum eftir því sem fram kemur á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins: Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík. Umsókn Háskólans á Bifröst uppfyllti hins vegar ekki hæfiskröfu um viðurkenningu til kennslu í sálfræði.

Ráðherra skipaði í framhaldinu matsnefnd til þess að fara yfir umsóknirnar og komst hún að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands væri hæfastur til að taka við kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Í stigamati á umsækjendum hlaut Háskólinn 128 stig af 135 mögulegum, Háskólinn á Akureyri 116 stig og Háskólinn í Reykjavík 110 stig. 

Ráðherra ákvað hins vegar að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri. „Að mati ráðherra uppfyllti Háskólinn á Akureyri mjög vel þær kröfur sem gerðar eru um gæði náms og aðbúnað til lögreglumenntunar.  Þá telur ráðherra aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunámi.  Að auki er með þessari ákvörðun skotið styrkari stoðum undir fjölbreytta starfsemi Háskólans á Akureyri,“ segir á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

lögreglumaður að störfum
lögreglumaður að störfum