Skip to main content
23. júní 2017

HÍ færist ofar á lista þeirra bestu í Evrópu

""

Háskóli Íslands er í sókn á meðal bestu háskóla Evrópu en hann raðast nú í sæti frá 120 til 130. Háskólinn var áður í röðinni þar fyrir neðan, eða í sæti frá 131 til 140. Þetta er samkvæmt nýjum matslista Times Higher Education European Top 200 Rankings sem var birtur í gær. Þetta er í annað sinn sem sérstakur listi yfir 200 bestu háskóla Evrópu er gefinn út en samkvæmt honum eru tveir enskir háskólar efstir. Oxford-háskóli er sá besti í Evrópu en Cambridge-háskóli kemur fast á hæla hans. Karolinska er besti háskóli Norðurlanda samkvæmt nýja listanum en sænski skólinn raðast í áttunda sæti. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir þessa stöðu skólans á evrópska listanum einkar gleðilega og hún sýni að skólinn sé í markvissri sókn. „Við getum verið afar stolt af þessum árangri því í raun þarf að bæta verulega frammistöðu í vísindum til að standa í stað á listanum, samkeppnin er það hörð. Þessi árangur vitnar því um ótvíræðan árangur af glæsilegu vísindastarfi sem á sér stað við Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli. 

Times Higher Education hefur í yfir áratug birt lista yfir bestu háskóla heims og telst hann með þeim allra virtustu. Ítarlegt mat fer fram á frammistöðu háskóla þar sem m.a. er horft til rannsóknastarfs, áhrifa rannsókna á alþjóðlegum vettvangi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Háskóli Íslands er einnig mjög framarlega á heimslistanum og er þar raðað frá sæti 201 til 250.  Við röðun á þann lista vega gæði rannsókna og vísindaleg áhrif þeirra, sem metin eru í fjölda tilvitnana, þyngst um stöðu Háskóla Íslands á listanum.

„Það skiptir miklu máli fyrir okkur Íslendinga að eiga háskóla sem er ítrekað svo framarlega á evrópska og alþjóðlega listanum. Styrkur okkar hefur vakið feiknarathygli á alþjóðavettvangi og skólanum opnast nú fjölmörg tækifæri til rannsóknasamstarfs við aðra háskóla í allra fremstu röð. Vísindafólk okkar hefur enda átt mikilli velgegni að fagna, ekki einungis í birtingu rannsóknagreina í virtum tímaritum heldur hafa rannsóknaniðurstöður okkar vísindamanna í mörgum mismunandi fræðigreinum á öllum fræðasviðum skólans verið afar áhrifamiklar. Það ber líka vott um mikil gæði í rannsóknum við Háskóla Íslands hversu kröftug sókn okkar hefur verið í innlenda og erlenda samkeppnissjóði. Þannig hafa vísindamenn héðan aflað fjár til metnaðarfullra rannsókna á tímum mikilla þrenginga.“

Rektor segist að þrátt fyrir að Háskóli Íslands sæki nú fram af metnaði þá hafi hann áhyggjur af framhaldinu og hvetur stjórnvöld til að auka fjárframlög til skólans.  Fjármálaáætlunin sem samþykkt var á Alþingi á dögunum hafi valdið vonbrigðum. Framlög til menntunar, rannsókna og nýsköpunar skili sér af margfalt til samfélagsins. 

 „Í glænýrri skýrslu frá Evrópusambandinu kemur skýrt fram að hver einasta evra sem sett er í menntun og rannsóknir skilar sér fimmföld til baka til samfélagsins. Þetta staðfestir í raun að ótvírætt orsakasamband er á milli framlaga til rannsókna, nýsköpunar og menntunar og framleiðniaukningar og hagvaxtar.“

Listann yfir bestu háskóla Evrópu má nálgast á heimasíðu Times Higher Education.

Aðalbygging Háskóla Íslands