Skip to main content
21. október 2016

HÍ aðili að öflugu samstarfsneti evrópskra háskóla

""

Háskóli Íslands hóf í dag samstarf við átta mjög virta evrópska háskóla. Skólarnir eiga það sameiginlegt að leggja í starfi sínu áherslu á hágæða rannsóknir, samfélagslega ábyrgð skólanna og að gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans. Samstarfsnet háskólanna, sem fengið hefur nafnið Aurora, var stofnað formlega í Amsterdam í dag, 21. október.

„Nýja samstarfsnetið tryggir Háskóla Íslands náið samstarf við mjög öfluga háskóla í Evrópu. Þetta samstarf skiptir Háskóla Íslands miklu máli þar sem það býður upp á aukin tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk skólans," sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við stofnun samstarfsnetsins í Hollandi fyrr í dag. „Tækifærin felast m.a. í meira samstarfi í kennslu og rannsóknum og auknum tækifærum í nemenda- og starfsmannaskiptum, bæði í akademíu og stjórnsýslu.“

Háskólarnir í Aurora eiga það sameiginlegt að vera mjög öflugir í rannsóknum samkvæmt mati Times Higher World University Rankings, sem birtist meðal annars í því að áhrif (e. impact) rannsókna þeirra eru mikil.

Stofnháskólarnir eru auk Háskóla Íslands, Vrije-háskóli í Amsterdam (Hollandi), Grenoble-Alpes háskóli (Frakklandi), Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi), Háskólinn í Antwerpen (Belgíu), Háskólinn í Björgvin (Noregi), Háskólinn í Duisburg-Essen (Þýskalandi), East Anglia háskóli (Englandi) og Gautaborgarháskóli (Svíþjóð).

Jón Atli segir að Háskóli Íslands sé alþjóðlega mjög aðlaðandi samstarfsaðili, aðspurður um ástæður þess að skólanum var boðið til samstarfs í nýja netinu. „Orðspor Háskóla Íslands og árangur á undanförnum árum skiptir hér mestu máli. Í netinu eru aðeins háskólar sem standa framarlega samkvæmt röðun Times Higher Education World University Rankings. Allir skólarnir eru með breitt námsframboð og sýna mikla samfélagslega ábyrgð. Háskóli Íslands uppfyllir öll þessi skilyrði.“

Jón Atli segir að háskólarnir í netinu muni beina sjónum sínum sameiginlega að mikilvægum viðfangsefnum sem skipta samfélög þeirra miklu máli. „Háskólarnir munu vinna náið saman þannig að þeir veita upplýsingar sín á milli sem nýtast í samanburði til að efla gæðastarf skólanna. Þannig fær Háskóli Íslands samanburðaháskóla í fremstu röð,“ segir rektor Háskóla Íslands.

„Það sem sameinar okkur er sú sannfæring að við megum ekkert gefa eftir í hágæðarannsóknum,“ sagði Jaap Winter, rektor Vrije-háskólans og forseti Aurora, við stofnun samstarfsnetsins í dag. „Aurora-háskólar deila þeirri sýn að nauðsynlegt er að þróa framsækin og opin háskólasamfélög sem eru í takt við þarfir þeirrar netvæddu kynslóðar sem nú vex úr grasi. Sú kynslóð stefnir einbeitt að því að takast á við vandamálin sem heimurinn stendur nú frammi fyrir.“

Rektor Vrjie-háskólans sagði jafnframt að skólarnir sem aðild eiga að nýja samstarfsnetinu vilji opinn og breiðan aðgang að háskólamenntun fyrir alla nemendur og opið akademískt samfélag. „Markmið okkar er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið með rannsóknum okkar, kennslu og miðlun. Við leitumst við að vefa þessa mikilvægu þætti inni í grunnstoðir háskólanna og alla starfshætti þeirra. Með netinu stuðlum við að auknu samstarfi fólks sem lærir hvert af öðru – samstarfið styrkir okkur í að ná háleitum markmiðum.“

David Richardson, rektor East Anglia háskóla, sagði að Aurora væri ekki stofnað til að berjast fyrir eigin hagsmunum heldur til að tengja háskóla sem hafi svipaðar áherslur í starfi sínu. „Þessir háskólar eru þekktir fyrir hágæðarannsóknir og þeir vilja styðja hverjir aðra í að finna lausnir á vandamálum heimsins. Aurora tekur formlega til starfa í dag en nú þegar hafa vísindamenn háskólanna níu og stúdentar sameinast víðs vegar um Evrópu til að kljást við sameiginlegar áskoranir og nýta tækifæri.“

Fyrr í haust hófst vinna innan skólanna við að þróa samstarfsfleti í rannsóknum sem tengjast m.a. sjálfbærni, loftslagsbreytingum, orkunýtingu og stafrænni tækni. Þá hafa nemendur skólanna miðlað reynslu sinni með áherslu á nýsköpun í námi og kennslu og í heilsueflingu. Nemendur hafa einnig leitað leiða til að samnýta nám þvert á alla háskólana.

„Þetta samstarfsnet getur skipt sköpum fyrir nemendur til lengri tíma litið,“ segir Kristófer Már Maronsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. „Það er mikilvægt að við tileinkum okkur það sem best er gert í öðrum háskólum innan samstarfsnetsins og heimfærum það upp á Háskóla Íslands. Hér á ég t.d. við upptökur á öllum fyrirlestrum og óheft aðgengi allra nemenda að öllum áföngum skólans í gegnum innra kerfið okkar, Ugluna.“

„Vinnustofur á vegum Aurora-samstarfsnetsins bjóða upp á frábær tækifæri fyrir nemendur,“ segir Amy Rust, nemandi við East Anglia háskóla. „Við vonumst til að skapa ný og spennandi námstækifæri fyrir nemendur sem ekki væri unnt án netsins.“

""
""