Skip to main content
10. júní 2015

Heimildamynd um Team Spark á RÚV á fimmtudag

RÚV sýnir fimmtudaginn 11. júní heimildamynd um þátttöku liðsins Team Spark, hóps verkfræðinema við Háskóla Íslands, í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppninni Formula Student á Silverstone-brautinni á síðasta ári. Myndin er hluti af lokaverkefni Stefáns Drengssonar í blaða- og fréttamennsku við skólann.

Lið frá Háskóla Íslands hafa tekið þátt í Formula Student allt frá árinu 2011 en í fyrra var í fyrsta sinn farið út til Englands með fullbúinn kappakstursbíl til þátttöku í flokki 1 þar sem lið eru dæmd út frá bæði hönnun einstakra hluta bílsins og akstri hans á kappakstursbraut. Yfir 30 verkfræðinemar lögðu á sig ómælda vinnu við þróun bílsins, sem fékk nafnið TS14, en auk þeirra komu nemendur úr vöruhönnun við Listaháskóla Íslands að hönnun ytra byrðis hans. Áhersla var lögð á að hafa bílinn umhverfisvænan og var hann rafknúinn.

Í heimildamyndinni er liðinu fylgt eftir við þróun bílsins, prófanir í aðdraganda keppni og þátttöku í Formula Student kappaksturs- og hönnunarkeppninni á hinni fornfrægu Silverstone-braut. Þar atti Team Spark kappi við yfir 100 lið úr háskólum víðs vegar að úr heiminum og var baráttan gríðarlega hörð. Í þessu langa ferli  skiptust á skin og skúrir hjá hópnum en þess má geta Team Spark hlaut sérstök verðlaun sem bestu nýliðarnir í flokki 1 í Formula Student.

Heimildamyndin um Team Spark er hluti af lokaverkefni Stefáns Drengssonar í meistaranámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands en auk hans sáu Jón Alfreð Hassing Olgeirsson og Almar Ingason um myndatöku. Dagskrárgerð var í höndum Stefáns og framleiðandi myndarinnar er Drengsson Pics.

Myndin um Team Spark verður sem fyrr segir á dagskrá RÚV fimmtudaginn 11. júní kl. 19:55.

Brot úr myndinni 

Við þetta má bæta að þónokkur endurnýjun hefur orðið í Team Spark og  mun liðið einnig taka þátt í Formula Student á Silverstone í ár með nýjum bíl, TS15. Liðið er nú í óða önn að leggja lokahönd á bílinn fyrir keppnina sem fram fer í byrjun júlí.

Team Spark á Silverstone-brautinni í fyrra. Það skiptust á skin og skúrir í undirbúningi keppninnar og í keppninni sjálfri.
Heimildamyndin um Team Spark er hluti af lokaverkefni Stefáns Drengssonar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.
Stefán fylgdi liðinu eftir í tæpt ár, allt frá því að undirbúningur fyrir keppnina hófst haustið 2013 og þar til keppninni lauk í júlí 2014. MYND/Jóhann Oddur Úlfarsson
Team Spark á Silverstone-brautinni í fyrra. Það skiptust á skin og skúrir í undirbúningi keppninnar og í keppninni sjálfri.
Heimildamyndin um Team Spark er hluti af lokaverkefni Stefáns Drengssonar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.
Stefán fylgdi liðinu eftir í tæpt ár, allt frá því að undirbúningur fyrir keppnina hófst haustið 2013 og þar til keppninni lauk í júlí 2014. MYND/Jóhann Oddur Úlfarsson