Skip to main content
26. október 2016

Hátt í 200 rannsóknir kynntar á Þjóðarspeglinum í HÍ

""

Pólitísk álitamál og Panama-skjölin, Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku, sumardvöl barna í sveit í nútíð og fortíð, ástin á tímum neyslunnar, réttindi flóttamanna, virkjun og verndun náttúrunnar, kynferði dómara á Íslandi, stærð íslenska lífeyriskerfisins, einelti á vinnustöðum og lífsánægja og lýðheilsa er aðeins brot af þeim viðfangsefnum sem fjallað verður um á ráðstefnunni Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands föstudaginn 28. október kl. 9-17. 

Þjóðarspegillinn er stærsta ráðstefna ársins á sviði félagsvísinda í Háskóla Íslands og líkt og fyrri ár verður kynntur fjöldi nýrra og spennandi rannsókna sem snúa að félagsvísindum á afar breiðum grunni. Efni rannsóknanna snertir m.a. félagsfræði, mannfræði, þjóðfræði, félagsráðgjöf, fötlunarfræði, hagfræði, lögfræði, stjórnmálafræði, kynjafræði, viðskiptafræði og stjórnun og stefnumótun svo eitthvað sé nefnt. 

Í ár verður boðið upp á 195 fyrirlestra í 52 áhugaverðum málstofum auk þess sem kynningar á einstökum rannsóknarverkefnum innan og utan háskólans fara fram á veggspjöldum og í veggspjaldamálstofum. 

Sérstakur gestur Þjóðarspegilsins í ár er Cheikh Ibrahima Niang, prófessor í mannfræði við Cheikh Anta Diop háskólann í Dakar í Senegal. Hann mun halda lykilerindi í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 13 á föstudag og fjalla um Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku. 

Dagskrá Þjóðarspegilsins og ágrip af einstökum erindum má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Prentuð dagskrá er einnig komin í dreifingu, m.a. við Bóksölu stúdenta, á Háskólatorgi, í Gimli, Odda og Aðalbyggingu. 

Ókeypis er á allar málstofur á Þjóðarspeglinum og allir hjartanlega velkomnir.

""
""