Skip to main content
3. nóvember 2016

Háskóli unga fólksins verðlaunaður af Siðmennt

""

Siðmennt veitti í gær Háskóla unga fólksins svokallaða fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands. Háskóli unga fólksins er gríðarlega vinsælt verkefni ætlað krökkum á aldrinum 12 til 16 ára. Þau setjast á nokkurs konar háskólabekk snemma sumars og nema greinar sem kenndar eru við Háskólann.

Á sama tíma fengu Þórunn Ólafsdóttir og Akkeri hina árlegu Húmanistaviðurkenningu sem Siðmennt veitir. Þórunn og Akkeri hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf í þágu flóttamanna, bæði hér heima og í útlöndum.

„Einstakar vinsældir Háskóla unga fólksins í rúman áratug sýna að ungir Íslendingar eru í meira lagi fróðleiksfúsir og þeir heillast af undrum vísindanna,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er hann tók við verðlaunum Siðmenntar í gær ásamt starfsfólki markaðs- og samskiptasviðs Háskólans sem stjórnar þessu vinsæla verkefni. 

Í Háskóla unga fólksins er fléttað saman leik og lifandi miðlun þar sem mikilvægi nýsköpunar og vísinda er flaggað í fulla stöng. Þetta síðasttalda leggur grunninn að lífsgæðum okkar í framtíðinni og því er fátt mikilvægara en að yngri kynslóðir okkar komist snemma í kynni við galdur rannsókna og uppgötvana.

Í Háskóla unga fólksins hefur fjölbreytnin ráðið ríkjum frá upphafi. Ungir nemendur skólans hafa m.a. kynnst mannsfrumunni, mikilvægi næringar, lífi hvala og skordýra, þeir hafa uppgötvað undur verkfræðinnar, séð heiminn með augum jarðfræðingsins, hannað kappakstursbíl, pælt í pólitík og ljósmyndum, talað kínversku og japönsku, gert tilraunir í efna- og eðlisfræði, rannsakað kristala og skoða fjarlægar stjörnur og horft beint í sólina - sem er auðvitað bannað - nema maður hafi sérstakan búnað eins og er til staðar í Háskóla unga fólksins.

Háskóli unga fólksins í boði út um land allt
Háskóli Íslands leggur áherslu á að eiga mikil og góð samskipti við nemendur á yngri skólastigum og er Háskóli unga fólksins sannarlega partur af þeirri stefnu.  Aðalfrumkvöðull Háskóla unga fólksins var Páll heitinn Skúlason, fyrrverandi rektor og landsþekktur hugsuður. Honum fannst tilvalið að opna Háskóla Íslands fyrir ungu og efnilegu fólki snemma sumars og koma því í kynni við fjölbreyttar námsgreinar sem eru ekki að jafnaði aðgengilegar í grunnskólum landsins.

Fyrstu árin starfaði Háskóli unga fólksins einungis á háskólasvæðinu. Á aldarafmæli skólans, árið 2011, var hins vegar á rás með skólann þegar lagðir voru vísindalegir lestarteinar út á land og Háskólalestin var stofnuð. Hún hefur heimsótt fjölda bæja víða um landið undanfarin ár og gefið krökkum á landsbyggðinni tækifæri til að nema í Háskóla unga fólksins sem er partur af lestinni.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim frábæru kennurum sem hafa lagt sitt af mörkum í Háskóla unga fólksins undanfarin ár og einnig starfsfólki markaðs- og samskiptasviðs Háskóla Íslands fyrir sitt ríkulega framlag til þessa verkefnis,“ sagði Jón Atli við athöfnina. 

Ég vil þakka sérstaklega Kristínu Ásu Einarsdóttur sem hefur verið skólastjóri Háskóla unga fólksins undanfarin ár. Einnig vil ég þakka Guðrún Bachmann sem hefur líka gegnt stöðu skólastjóra,“ sagði rektor Háskóla Íslands. 

Siðmennt veitti þremur samtökum styrki
Við sömu athöfn hlaut Þórunn Ólafsdóttir og Akkeri hlutu hina árlegu Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar en Þórunn og samtökin hafa unnið gríðarlega mikilvægt og óeigingjarnt starf í þágu flóttamanna, bæði hér á landi og erlendis. 

Siðmennt veitti einnig þremur samtökum styrki í gær. Málefni flóttamanna eru Siðmennt sérlega hugleikin í ár og því var veittur stuðningur til flóttabarna í Sýrlandi að upphæð kr. 350.000 með milligöngu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Akkeri fékk enn fremur 150.000 krónur fyrir störf í þágu flóttafólks.

Einnig var styrkur að upphæð 100.000 krónur veittur Tabú, innlendri hreyfingu sem vinnur að mannréttindamálum. Tabú er femínísk hreyfing þar sem við beinum sjónum okkar að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna, sem hafa ekki einungis upplifað misrétti á grundvelli fötlunar og kyngervis, heldur einnig mögulega kynhneigðar, kynþáttar og aldurs svo eitthvað sé nefnt," segir í skilgreiningu á Tabú á heimasíðu hreyfingarinnar.

Háskóli unga fólksins verðlaunaður af Siðmennt
Siðmennt veitti styrki
Siðmennt veitti styrki
Siðmennt veitti styrki
Háskóli unga fólksins verðlaunaður af Siðmennt
Siðmennt veitti styrki
Siðmennt veitti styrki
Siðmennt veitti styrki