Skip to main content
9. febrúar 2017

Háskóli Íslands á réttri leið í sorpflokkunarmálum

Tölur um heildarmagn sorps sem til fellur í Háskóla Íslands og hlutfall sem fer til endurvinnslu á árinu 2016 sýna að skólinn er á réttri leið. Heildarmagn hefur minnkað og meira er flokkað til endurvinnslu.

Heildarmagn á tímabilinu 2015-2016 fór úr 301.845 kg í 272.795 kg og hlutfall flokkaðs sorps úr 45,2 % í 49,2% . Þetta er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að milli áranna 2014 og 2015 jókst sorpmagn. Núverandi tölur benda til þess að nú sé fólk í auknum mæli að flokka betur, forðast einnota varning og óþarfa sóun. Það er hins vegar rúm til að gera mun betur enda á að vera hægt að flokka nánast allt sorp sem fellur til í starfi Háskólans.

Ef tekið er dæmi um varning sem fæst í Hámu og á kaffistofum FS þá skilst okkur að það séu bara fílakaramellubréf, álpappír og állok af skyri, jógúrt og söfum sem eiga heima með blandaða úrganginum í svörtu pokunum. Allt annað á að vera hægt að flokka til endurvinnslu.

Ragna Dagbjört Davíðsdóttir frá Gámaþjónustunni, sem hélt kynningu fyrir nokkra starfsmenn Háskólans og FS/Hámu í vikunni, taldi að Háskólinn ætti leikandi að ná sorpflokkuninni upp í 60% enda þekkir hún dæmi um stofnanir sem flokka yfir 90% af sínum úrgangi. Þetta verður þó ekki gert öðruvísi en að fleiri bætist við í hóp þeirra sem flokka.

Nemendur og starfsfólk er hvatt til að setja sér markmið um að nota svarta pokann sem minnst og vera duglegra við að senda inn fyrirspurnir um vafaatriði (thb@hi.is, sil@hi.is). Það sem við höfum helst rekið okkur á er að fólk þorir ekki að setja skítugar matarumbúðir í bláa og græna flokkinn, en við viljum benda á að það þarf ekki að skola þær. Það nægir að tæma þær og setja matarleifar í lífræna dallinn sé hann til staðar en annars í svarta pokann. Dæmi um önnur vafaatriði má finna á flokkun.hi.is en þar bætum við inn upplýsingum þegar fyrirspurnir berast. Svo er auðvitað betra að draga úr sorpmagni og óþarfa sóun, til dæmis með því að koma með fjölnota borðbúnað í skólann, prenta út minna af pappír o.s.frv.

Pappír og pappa á að flokka í bláa pokann
Hlutfall endurvinnslu af heildarmagni sorps í HÍ 2009-2016