Skip to main content
25. maí 2016

Háskólalestin í Vogum á fimmtudag og föstudag

""

Háskólalestin heimsækir síðasta áfangastað sinn þetta vorið, Sveitarfélagið Voga á Vatnsleysuströnd, 26. – 27. maí nk. 

Fimmtudaginn 26. maí kl. 17–19 verður stjörnutjaldið sívinsæla opið gestum og gangandi í Tjarnarsal í Stóru-Vogaskóla. Þar gefst fólki tækifæri til að ferðast um himingeiminn undir leiðsögn Sævars Helga Bragasonar sem er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir einstaka þekkingu sína á himingeimnum. Allir eru velkomnir á sýningar í stjörnutjaldinu og er aðgangur að sjálfsögðu ókeypis.

Föstudaginn 27. maí mætir áhöfn Háskólalestarinnar í Stóru-Vogaskóla. Þar verða í boði valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir nemendur eldri bekkja skólans. Námskeiðin sem um ræðir eru efnafræði, eðlisfræði, stjörnufræði, Biophilia-tónvísindasmiðjur, leikur með hljóð, vísindaheimspeki, vindmyllusmíði og japanska.

Þetta er fyrsta ferð Háskólalestarinnar til Voga, en lestin hefur heimsótt hátt í 30 staði síðan hún lagði upp í sitt fyrsta ferðalag árið 2011. Þrjú önnur sveitarfélög hafa verið heimsótt í maí í ár, Búðardalur, Blönduós og Stykkishólmur.

Hægt er að fylgjast nánar með ferðalögum lestarinnar á heimasíðu hennar og einnig á Facebook.

Frá Háskólalestinni í Stykkishólmi
Frá Háskólalestinni í Stykkishólmi