Skip to main content
22. maí 2015

Háskólalestin á Þórshöfn um helgina

Þórshöfn á Langanesi er þriðji áfangastaður Háskólalestarinnar í maímánuði og mun lestin stoppa þar dagana 22. og 23. maí. Sem fyrr verður lestin með fjölmargt forvitnilegt í farteskinu og býður m.a. upp á vísindaveislu fyrir alla fjölskylduna þar sem vísindin eru kynnt í lifandi og litríku ljósi.

Föstudaginn 22. maí verða kennd námskeið úr Háskóla unga fólksins í Grunnskólanum á Þórshöfn en þangað koma líka nemendur úr elstu bekkjum Grunnskólans á Bakkafirði. Boðið verður upp á námskeið í eðlisfræði, stjörnufræði, vindmyllum og vindorku, efnafræði, japönsku og jarðfræði.

Á laugardeginum 23. maí er svo komið að vísindaveislunni og fer hún fram í Félagsheimilinu Þórsveri frá kl. 11-15. Þar fá kennarar úr Háskóla unga fólksins til sín liðsauka og verður eitt og annað skemmtilegt á boðstólnum, svo sem japanskt origami, litrík og kröftug efnafræði, sýnitilraunir og fagurfræði eðlisfræðinnar, furðuspeglar og syngjandi skál, vísindaþrautir og áskoranir, stjörnur og sólir, vindmyllusmíði og kristallar og eldgos. Þá verður boðið upp á ævintýraferðir um himingeiminn í stjörnutjaldi á 30 mínútna fresti.

Allir eru hjartanlega velkomnir í vísindaveisluna og aðgangur er ókeypis.

Háskólalestin hefur í ár forystu um Norrænu þekkingarlestina svokölluðu sem ásamt Biophilia-menntaverkefninu var stór hluti af framlagi Íslands á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Þau norrænu byggðarlög sem taka þátt í verkefninu munu á þessu ári útfæra Þekkingarlestina í sínu heimalandi að fyrirmynd Háskólalestarinnar ásamt því að þróa Biophilia-verkefnið frekar, en það á rætur sínar í samstarfi Háskóla Íslands við tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg. Öll norrænu ríkin taka virkan þátt í verkefninu auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Þetta er fimmta árið í röð sem Háskólalestin brunar um landið með fjör og fræði fyrir alla aldurshópa en hún hefur fengið fádæma góðar viðtökur á þeim liðlega 20 stöðum á landsbyggðinni sem sóttir hafa verið heim fá árinu 2011. 

Háskólalestin lýkur ferð sinn um Austur- og Norðausturland í næstu viku þegar Húsvíkingar verða sóttir heim dagana 29. og 30. maí. Það verður jafnframt síðasti áfangastaður lestarinnar í ár.

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar og Facebook

Vísindaveisla Háskólalestarinnar í Þórsveri er opin öllum aldurshópum.
Vísindaveisla Háskólalestarinnar í Þórsveri er opin öllum aldurshópum.