Skip to main content
20. október 2016

Hans Jónatan snýr aftur til Danmerkur

Bók Gísla Pálssonar, prófessors í mannfræði við Háskóla Íslands, um Hans Jónatan, manninn sem stal sjálfum sér, heldur áfram yfirreið sinni um heiminn og verður gefin út á dönsku á næsta ári, þaðan sem Hans Jónatan kom til Íslands. Líklega kemur hún einnig út á frönsku. Gísli er enn fremur á leið í upplestrar- og fyrirlestraferð til Bandaríkjanna í nóvember vegna  enskrar útgáfu bókarinnar.

Bókin „Hans Jónatan – Maðurinn sem stal sjálfum sér“ kom út á vegum Forlagsins árið 2014 en hún byggist á rannsóknum Gísla á ævi manns að nafni Hans Jónatan sem var uppi á 18. og 19. öld. Hans Jónatan var fæddur í ánauð á eyjunni St. Croix í Jómfrúaeyjaklasanum og sendur ungur að árum til Kaupmannahafnar. Þar naut hann sem þræll menntunar hjá húsbónda sínum en í kjölfar frækilegrar frammistöðu í orrustunni um Kaupmannahöfn 1801 sóttist hann eftir frelsi. Húsbóndi hans höfðaði þá mál fyrir dönskum rétti og vildi senda „múlattann“, eins og Hans Jónatan var kallaður, aftur til Jómfrúreyja. Hans Jónatan tapaði málinu en lét sig engu að síður hverfa. Hann fluttist til Íslands þar sem hann settist að á Djúpavogi, kvæntist og gerðist verslunarmaður og bóndi.

Bók Gísla um Hans Jónatans vakti mikla athygli þegar hún kom út enda varpar hún ljósi á nýlendutíma Dana , þrælahald og kúgun en jafnframt þrána eftir frelsi. Hið virta bókaforlag University of Chicago Press ákvað í framhaldinu  að gefa bókina út á ensku undir heitinu „The Man Who Stole Himself“. Bókin hefur fengið lofsamlega dóma og mun Gísli fylgja útgáfunni eftir með upplestrar- og fyrirlestraferð til fimm borga í Bandaríkjunum. Þar mun hann lesa upp úr bókinni og ræða efni hennar í bókabúðum, háskólum og norrænum menningarsetrum, m.a. Scandinavia House í New York.

Þá hefur Gísli komist að samkomulagi við hið unga forlag Rebel With a Cause um útgáfu bókarinnar í danskri þýðingu. Hún kemur út í marslok 2017, en þá verður öld liðin frá því að Danir seldu Bandaríkjamönnum Dönsku Jómfrúaeyjar. Þessa afmælis verður víða minnst í Danmörku og þar mun saga Hans Jónatans skipa veglegan sess. Því má segja að Hans Jónatan snúi aftur til Danmerkur, rúmum tveimur öldum eftir að hann flúði þaðan til Íslands.

Þessu til viðbótar vinnur Gísli að heimildamynd um Hans Jónatan og afkomendur hans hér á landi í samstarfi við Valdimar Leifsson og Bryndísi Kristjánsdóttur en áætlað er að hún verði frumsýnd í byrjun næsta árs.

Gísli Pálsson og kápa enskrar útgáfu bókarinnar um Hans Jónatan
Gísli Pálsson og kápa enskrar útgáfu bókarinnar um Hans Jónatan