Skip to main content
12. október 2016

Hann færði almenningi söguna

""

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Sagnfræðingafélag Íslands og Sögufélag í samstarfi við Háskóla Íslands, Þjóðminjasafn Íslands og Landsbankann efna til minningarþings um Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðing í Þjóðminjasafninu laugardaginn 15. október kl. 15-17.

Eggert Þór starfaði við Háskóla Íslands frá 1987 og tók við prófessorsstarfi árið 2009. Því starfi gegndi hann til dánardags. Eggert var afkastamikill fræðimaður og ritaði m.a. bækurnar Saga Reykjavíkur 1940–1990 í tveimur bindum, Undir bárujárnsboga. Braggalíf í Reykjavík 1940–1970 og Sveitin í sálinni. Búskapur í Reykjavík og myndun borgar. Auk þess birti Eggert Þór fjölda greina á sviði sagnfræði, setti upp sögusýningar, gerði útvarps- og sjónvarpsþætti og nýtti nýja miðla til lifandi framsetningar á sagnfræðilegu efni í máli og myndum.

Eggert Þór var frumkvöðull innan fræðigreinar sinnar og setti m.a. á fót námsleið á meistarastigi í hagnýtri menningarmiðlun. Sú grein blómstraði undir hans stjórn enda var hann vinsæll og vandvirkur kennari og leiðbeinandi sem sinnti nemendum sínum af alúð.

Eggert Þór Bernharðsson lést á gamlársdag 2014, 56 ára að aldri.

Dagskrá þingsins:

  • 15:00 Þingsetning. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður
  • 15:15 Fræðimaðurinn Eggert Þór Bernharðsson. Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs
  • 15:30 Ný tæki og tól - Stuttmynd um sögu HMM. Ármann H. Gunnarsson menningarmiðlari og Halla Kristín Einarsdóttir kvikmyndagerðarmaður
  • 15:45 „Við urðum sjálfir að setja blaðið“ - Eggert Þór og miðlun sögunnar. Sumarliði R. Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun
  • 16:00 Tölvuleikir og menningarmiðlun - Hugleiðingar unglingsins á heimilinu. Gunnar Theodór Eggertsson bókmenntafræðingur
  • 16:15 Tónlistarflutningur - Sakna. Texti eftir Þórunni Jörlu Valdimarsdóttur, lag eftir Lilju Valdimarsdóttur í útsetningu Völu Gestsdóttur
  • 16:30 Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, opnar ljósmyndasýningu Eggerts Þórs Bernharðssonar, Myndir tala. Fimmtán tvennur. Umsjónarmenn sýningar: Gunnar Theodór Eggertsson og Valdimar Ágúst Eggertsson. Sýningarstjóri: Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur.

Anna Agnarsdóttir prófessor verður fundarstjóri. Hér að neðan má hlýða á viðtal við hana um málþingið.

Eggert Þór Bernharðsson