Skip to main content
17. mars 2017

Greining forngermanskra kveðskaparforma

""

Út er komin bókin Approaches to Nordic and Germanic Poetry í ritstjórn Kristjáns Árnasonar, Stephen Carey, Tonya Kim Dewey, Hauks Þorgeirssonar, Ragnars Inga Aðalsteinssonar og Þórhalls Eyþórssonar.

Bókin fjallar um greiningu forngermanskra kveðskaparforma og um hlutverk gamalla hátta og bragreglna í síðari skáldskap á Íslandi og hjá skyldum þjóðum.

Meðal annars er fjallað um ljóðstafanotkun í miðenskum og seinni tíma íslenskum skáldskap. Erlendir og innlendir fræðimenn kanna lögmál um orðaröð, ljóðstafi og bragfæðilega bindingu kenninga og myndmáls í dróttkvæðum. Einnig eru greinar sem bjóða upp á endurskoðun á greiningakerfi Eduards Sievers á edduformum, eða grundvallarendurtúlkun á formi þeirra í ljósi almennra kenninga um bragform og hrynjandi.

Bókin skiptist í þrjá meginhluta. Sá fyrsti fjallar um forn-germanska hætti og edduhætti, annar um dróttkvæði og sá síðasti um hugmyndafræðilega tengingu formþátta kveðskaparins, ekki síst stuðlasetningar.

Höfundar efnis eru Kristin Lynn Cole, Frog (Háskólanum í Helsinki), Haukur Þorgeirsson (Stofnun Árna Magnússonar), Kristján Árnason (Háskóla Íslands), Ragnar Ingi Aðalsteinsson (Háskóla Íslands), Seiichi Suzuki (Kansai Gaidai háskóla Japan), Tonya Kim Dewey, Klaus Johan Myrvoll (Háskólanum í Ósló), Þorgeir Sigurðsson (Háskóla Íslands) og Þórður Helgason (Háskóla Íslands).

Kápa Approaches to Nordic and Germanic Poetry