Skip to main content
23. nóvember 2016

Græn skref kynnt á upplýsingafundi rektors

Eitt af umfjöllunarefnum Jóns Atla Benediktssonar rektors á upplýsingafundi sínum með starfsmönnum miðvikudaginn 23. nóvember var innleiðing Háskóla Íslands á svokölluðum Grænum skrefum í ríkisrekstri. Á fundinum lagði rektor áherslu á að innleiðingin væri verkefni allra starfsmanna Háskóla Íslands.

Markmiðið með innleiðingunni er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum í daglegum rekstri háskólans. Verkefnið er í takti við nýja stefnu háskólans 2016-2021 þar sem fram kemur að skólinn muni taka upp umhverfisstjórnunarkerfi. Grænu skrefin eru góður undirbúningur fyrir það.

Verkefnið snýst um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Það felur í sér mikinn ávinning og mun gera starf Háskólans markvissara í sjálfbærni- og umhverfismálum. Skrefin hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi skólans og draga úr rekstrarkostnaði.

Grænu skrefin eru fimm og í hverju þeirra er unnið með sex flokka með það að markmiði að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum. Þessir flokkar eru:

  • innkaup
  • miðlun og stjórnun
  • fundir og viðburðir
  • flokkun og minni sóun
  • rafmagn og húshitun
  • samgöngur

Sigurlaug Lövdahl, skrifstofustjóri á framkvæmda- og tæknisviði, og Þorbjörg Sandra Bakke, verkefnastjóri umhverfis- og sjálfbærnimála, halda utan um verkefnið. Þar sem Háskólinn er stór stofnun leita þær eftir samstarfsaðilum, „grænum sendiherrum“, innan allra fræðasviða og deilda, bæði meðal starfsfólks og nemenda. Hlutverk þeirra verður að aðstoða við eftirfylgni, hvatningu og fleira til að tryggja að Háskólinn nái að stíga grænu skrefin.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi í sumar og var ákvörðun tekin um að byrja að innleiða skrefin í miðlægri stjórnsýslu og allri skrifstofustarfsemi í Aðalbyggingu Háskólans. Í framhaldinu verður farið í aðrar byggingar.

Þorbjörg og Sigurlaug hvetja alla sem starfa innan skólans að kynna sér Grænu skrefin sem fyrst og skoða hvað hver og einn getur lagt af mörkum til að styðja við þau. Til einföldunar hefur verið útbúinn listi með áhersluatriðum sem auðvelt er að tileinka sér. Listinn verður uppfærður reglulega og gera má ráð fyrir að hann verði rækilegri eftir því sem lengra er haldið í innleiðingarferlinu. 

Nánari upplýsingar um sjálfbærni- og umhverfismál í Háskóla Íslands má finna á Facebook og vefgátt sjálfbærni- og umhverfismála á vef Háskólans. 

Rektor í Hátíðarsal