Skip to main content
10. febrúar 2016

Góðir gestir í námskeiðinu Samvinna og árangur

Meistaranemendur í námskeiðinu Samvinna og árangur fengu góða gesti til sín í kennslustund þriðjudaginn 9. febrúar síðastliðinn sem ræddu við þau um samvinnu og sjálfstraust. Þessa dagana standa nemendurnir fyrir styrktarsöfnuninni „Upplifun fyrir alla“ sem hefur það að markmiði að safna fjármagni fyrir Reykjadal, vetrar- og sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni. Kennari námskeiðsins er Elmar Hallgríms Hallgrímsson, lektor við Viðskiptafræðideild.

Ólafur Darri Ólafsson leikari ræddi við nemendur um sjálfstraust og miðlaði af reynslu sinni úr leiklistinni. Brýndi hann fyrir nemendum að taka höfnun ekki persónulega, sérstaklega í ljósi þess að nú stæðu þau frammi fyrir því verkefni að ræða við marga aðila varðandi styrktarsöfnunina og einhverjir munu fá neitun. Því væri nauðsynlegt að taka því ekki persónulega heldur geta staðið aftur upp og tekið næsta fund.

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu, ræddi við nemendur um liðsheild og miðlaði af reynslu sinni af störfum sínum með landsliðinu. Fór Heimir m.a. yfir hvernig hægt er að ná árangir með markvissum og öguðum vinnubrögðum. Lagði Heimir áherslu á liðsheildina og að setja sér markmið sem allir í liðinu deila.

Styrktarsöfnunin „Upplifun fyrir alla“ stendur til 23. febrúar næstkomandi og standa nemendur að fjölda viðburða í tengslum við söfnunina. Hægt er að sjá lista yfir viðburði á Facebook síðu söfnunarinnar auk þess sem upplýsingar um styrktarnúmer eru aðgengilega á síðunni.

Ólafur Darri, Elmar og Heimir
Ólafur Darri Ólafsson
Heimir Hallgrímsson
Ólafur Darri, Elmar og Heimir
Ólafur Darri Ólafsson
Heimir Hallgrímsson