Skip to main content
2. maí 2016

Gengið um hrauntraðir í Heiðmörk

""

„Í Búrfellsgjá má meðal annars sjá stórar og miklar gjár, sem skera hraunið, en einnig litla hellisskúta og fagurslétta hamraveggi þar sem hraunið rann áður um,“ segir Snæbjörn Guðmundsson, doktorsnemi í jarðfræði við Háskóla Íslands. Snæbjörn leiðir gönguferð um Búrfellsgjá í Heiðmörk að gígnum Búrfelli á morgun, þriðjudaginn 3. maí kl. 17, í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands. Gangan er ókeypis og opin öllum.

Háskólinn og Ferðafélagið hafa allt frá árinu 2011, þegar Háskóli Íslands fagnaði aldarafmæli sínu, boðið upp á léttar og fræðandi gönguferðir um og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Samstarfið fer fram undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ en þar blandast saman reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking vísindamanna og nemenda Háskóla Íslands á áhugaverðan hátt. 

Að sögn Snæbjörns liggur Búrfellsgjá frá snotrum gíg sem nefnist Búrfell en í honum gaus fyrir um 8000 árum. „Frá gígnum rann hraun sem nú þekur stóran hluta Garðabæjar og Hafnarfjarðar og ber það ýmis nöfn, svo sem Hafnarfjarðarhraun, Vífilsstaðahraun og Gálgahraun. Leiðin upp að Búrfelli liggur um Búrfellsgjá sem er í raun upprunalega rennslisleið hraunsins frá gígnum, en slík jarðfræðifyrirbrigði nefnast hrauntraðir,“ útskýrir Snæbjörn sem mun útskýra þau náttúrufyrirbrigði sem fyrir augu bera á leiðinni upp að Búrfelli. Þá gefst einnig færi á að skoða ýmsa hella, sprungur og gjótur.

Snæbjörn hefur verið óþreytandi að miðla undrum jarðfræðinnar til allra aldurshópa undanfarin ár, bæði í Háskólestinni svokölluðu og Háskóla unga fólksins en einnig með útgáfu handbókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands sem kom út árið 2015. Þar er fjallað um jarðfræði á 100 áhugaverðum áningarstöðum víða um land. Aðspurður hvað heilli hann sjálfan mest við jarðfræði landsins nefnir Snæbjörn fjölbreytileikann. „Ísland er í grunninn eldfjallaeyja, afsprengi eldvirkni á flekamótum og yfir möttulstróki og því skortir vissulega ýmislegt hér í jarðfræðinni sem heillar marga erlendis. Fjölbreytileikinn innan eldvirkninnar er hins vegar mikill og ofan á það bætist að Ísland er ekki síður jöklaland. Hér hefur ísaldarjökullinn að miklu leyti stjórnað landmótun síðustu ármilljónirnar og samspil eldvirkni og jökla er mikil eftir því, í raun meiri en víðast annars staðar. Með því að skoða landið í heild sinni sjáum við þannig býsna heildstæða og áhugaverða þróun landsins, hvernig nýtt berg verður til í eldgosum í miðju Íslands áður en það færist svo með reki jarðskorpuflekanna í átt að jöðrum landsins. Þetta ferli er ákaflega heillandi,“ segir Snæbjörn.

Gangan um Búrfellsgjá á morgun er ætluð fólki á öllum aldri og því tilvalin fyrir fjölskylduna að loknum vinnudegi. Brottför verður kl. 17 á einkabílum frá bílastæðinu við Vífilsstaði í Garðabæ þaðan sem ekið verður í halarófu inn í Heiðmörk. Áætlað er að gangan taki á bilinu 3-4 klst. 

Fólk á göngu um Búrfellsgjá
Fólk á göngu um Búrfellsgjá