Skip to main content
8. maí 2015

Gengið til stuðnings rannsóknum á brjóstakrabbameini

Styrktarfélagið Göngum saman hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Félagið hefur þannig styrkt vísindamenn við Háskóla Íslands af miklum krafti um tugi milljóna króna og í hópi þeirra sem notið hafa rannsóknastyrkjanna eru meistara- og doktorsnemar við skólann. Þegar taldir eru með styrkir til vísindamanna við Landspítala - háskólasjúkrahús hefur Göngum saman stutt grunnrannsóknir á krabbameini um 50 milljónir króna á síðustu átta árum.

Á mæðradaginn, sunnudaginn 10. maí, verður styrktarganga Göngum saman haldin víðs vegar um land. Í Reykjavík hefst gangan við Háskólatorg en fyrir gönguna gefst göngufólki færi á að hitta fjölmarga styrkþega félagsins og fræðast um rannsóknir þeirra. 

„Styrktarfélagið Göngum saman er grasrótarfélag sem leggur áherslu á hreyfingu, bæði til heilsueflingar og sem tæki til að afla fjár til styrktar grunnrannsóknum á krabbameini í brjóstum,“ segir Gunnhildur Óskarsdóttir, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, formaður stjórnar styrktarfélagsins og einn af forsprökkum göngunnar. Gangan frá Háskólatorgi hefst klukkan 11 og verður genginn hringur um miðbæinn.

„Félagið okkar hefur undanfarin ár haldið úti vikulegum göngum í Reykjavík, á Akureyri og á Dalvík til heilsueflingar,“ segir Gunnhildur og bætir því við að helsta fjáröflun félagsins séu árlegar styrktargöngur víðs vegar um land á mæðradaginn. „Í tengslum við styrktargöngurnar hefur félagið verið í samstarfi við unga íslenska hönnuði sem hafa hannað boli og buff sem hafa verið til sölu og einnig hefur Landsamband bakarameistara lagt félaginu lið með sölu á svokölluðum brjóstabollum í bakaríum um allt land. Allt fé sem safnast fer í styrktarsjóð sem veitt er úr árlega.“ Þess má geta að varningur félagsins verður til sölu á Háskólatorgi sunnudaginn 10. maí.

Gunnhildur segir að grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini séu forsenda annarra rannsókna á þessu meini og forsenda lækninga á brjóstakrabbameini og öðrum krabbameinum. „Íslendingar hafa þar mikilvægu hlutverki að gegna. Íslenskir vísindamenn hafa unnið að rannsóknum á brjóstakrabbameini í áratugi og birt fjöldann allan af vísindagreinum á þeim vettvangi, þeir eru mikilvægur hlekkur á alþjóðlega vísu.“

Gunnhildur segir að margir af þeim doktorsnemum sem félagið hafi styrkt hafi nú lokið sínu námi og einhverjir þeirra starfi nú erlendis við áframhaldandi rannsóknir. „Greinar hafa birst á alþjóðlegum vettvangi um rannsóknir sem félagið hefur styrkt og rannsakendur hafa kynnt rannsóknir sínar á ráðstefnum hér á landi og erlendis.“

Gunnhildur Óskarsdóttir.
Gunnhildur Óskarsdóttir.