Skip to main content
20. júní 2017

Gengið á slóðum álfa í Mosfellsdal

""

„Jónsmessunóttin eða sumarsólstöðurnar eru ein af töfranóttum náttúrunnar í íslenskri og erlendri þjóðtrúarhefð þar sem yfirnáttúrulegar verur fara á kreik, selir kasta hömum sínum, kýr tala og grös og jurtir öðlast yfirnáttúrulegan kraft. Þá er þessi nótt betur til þess fallin að finna náttúrusteina á borð við lausnarsteina og hulinshjálmssteina en aðrar nætur og til útiseta á krossgötum. Auk þess þótti döggin á Jónsmessunótt svo heilnæm að hún var talin geta læknað flesta húðkvilla velti fólk sér nakið upp úr henni.“ Þetta segir Júlíana Þóra Magnúsdóttir, aðjunkt og doktorsnemi í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild, sem leiða mun göngu á slóðum álfa og huldufólks í Mosfellsdal á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna, undirdeildar Ferðafélags Íslands, miðvikudaginn 21. júní kl. 16. 

Gangan er ætluð allri fjölskyldunni og verður hist við skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 þaðan sem ekið verður á einkabílum upp í Mosfellsdal. Þar verður gengið upp að Helgufossi og í leiðinni verður álfabyggðin í Helguhól heimsótt þar sem Júlíana mun fræða fólk um álfa og þjóðtrú tengda sumarsólstöðum og Jónsmessu.

Áhersla á náttúruna á sumarsólstöðum

Það fer vel á því að gangan fari fram á sumarsólstöðum þegar sólargangurinn er lengstur á árinu, en skammt undan er Jónsmessan sem kennd er við Jóhannes skírara og ber upp á 24. júní. „Jónsmessan á marga þætti þjóðtrúar sameiginlega með vetrarsólstöðum og hátíðum þá, eins og jólanótt, nýársnótt og þrettándanum sem einnig eru töfranætur í íslenskri þjóðtrúarhefð en þá eru skilin á milli heima minni en venjulega. Helsti munurinn á sumarsólstöðum og vetrarsólstöðum hvað þjóðtrú varðar er sá að áherslan er fremur á náttúruna og afurðir hennar á sumarsólstöðunum en á yfirnáttúrulegar verur á vetrarsólstöðunum, sem skýrist kannski fyrst og fremst af ólíkum náttúrufarslegum aðstæðum og meintri ljósfælni flestra íslenskra þjóðtrúarvera,“ segir Júlíana.

Hún bendir enn fremur á að ýmislegt í íslenskri Jónsmessuþjóðtrú sé sameiginlegt með nágrannalöndunum. „Svo sem hugmyndir um útisetur og töframátt grasa og steina. Hérlendis hafa hins vegar ekki tíðkast miðsumarssvallhátíðir á sama hátt og í mörgum nágrannalöndunum þar sem menn gera sér glaðan dag við dans og brennur sem gjarnan tengdust ýmsum yfirnáttúrulegum verum, nornum og djöflum,“ segir hún.

Sólstöður marka þáttaskil

Aðspurð um hversu gömul þjóðtrúin, sem tengist sumarsólstöðum og Jónsmessu, er segir Júlíana að vetrar- og sumarsólstöðuhátíðir hafi verið algengar í Evrópu fyrir kristni en segja megi að kristnin hafi yfirtekið þær þegar hún festi rætur. „Þótt flestar heimildir um siði og þjóðtrú sem tengjast Jónsmessunni séu ekki mjög gamlar má ætla að sumt í þeim eigi sér fornar rætur. Undirstöðu þjóðtrúar sem tengist sólstöðum er líklega að finna í sammannlegum hugmyndum um sólstöðurnar sem þáttaskil þar sem náttúran er á þröskuldi tveggja tíma, þ.e. einni hringrás lýkur og önnur tekur við, en slík tímamót hafa verið nefnd jaðartímabil (e. liminality) af mannfræðingum. Á slíkum jaðartímabilum, hvort sem þau tengjast fólki eða náttúru, eru skilin á milli hins yfirnáttúrulega heims og hins hversdagslega gjarnan talin minni en venjulega og ýmsar reglur og siðvenjur hversdagslífsins í uppnámi,“ segir Júlíana enn fremur.

Sem fyrr segir er gangan í Mosfellsdal á vegum Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna og er reiknað með að hún taki 2-3 klukkustundir. „Fróðleikur og dagskrá miðast við þarfir barnanna en fullorðnum, sem ekki eru með börn, er þó velkomið að slást með í förina. Það er gott að mæta með regnföt þar sem gera má ráð fyrir smávegis vætu og einnig létt nesti til að grípa í við Helguhól,“ segir Júlíana full tilhlökkunar. 

Álfagangan í Mosfellsdal er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.

Gestir í álfagöngu árið