Skip to main content
11. nóvember 2015

Fyrsta skóflustungan að nýju sjúkrahóteli tekin í dag

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tók fyrstu skóflustungu að nýju sjúkrahóteli á Landspítala við Hringbraut fyrr í dag. Með honum voru m.a. fyrrverandi heilbrigðisráðherrar auk starfsmanna Landspítala, fulltrúa Háskóla Íslands, velunnara spítalans og áhugafólks um uppbyggingu þjóðarsjúkrahússins við Hringbraut. Fulltrúar nemenda úr öllum sex deildum Heilbrigðisvísindasviðs tóku þátt í athöfninni.

Athöfnin hófst með því að heilbrigðisráðherra skrifaði undir samning við byggingarfyrirtækið LNS Saga ehf. um byggingu sjúkrahótelsins. Samningurinn er milli Nýs Landspítala ohf. og LNS Saga ehf. sem var lægstbjóðandi í verkið í útboði. 

Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Nýs Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Það rís á norðurhluta lóðar spítalans milli kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs og verður tekið í notkun árið 2017. Í sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og með tilkomu þess breytist aðstaða fyrir sjúklinga og aðstandendur mjög til batnaðar. 

Aðalhönnuður sjúkrahótelsins er KOANhópurinn en forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar er unnin af SPITALhópnum.  Húsið verður prýtt með steinklæðningum, listaverki eftir Finnboga Pétursson myndlistarmann.

Sjúkrahótelið verður fjórar hæðir og kjallari. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð (brúttó), 14.780 rúmmetrar (brúttó) með kjallara og tengigöngum. Hótelið mun tengjast barnaspítala og kvennadeild um tengigang.

Framkvæmdir hefjast fljótlega á lóð Landspítala. Í fyrstu er þar um að ræða gerð bráðabirgðabílastæða á svæðinu sunnan við aðalbyggingu Landspítala sem koma í stað annarra stæða sem verður lokað tímabundið þegar framkvæmdir hefjast við byggingu sjúkrahótelsins. Þessari framkvæmd verður lokið um miðjan desember.

Ljóst er að nýr Landspítali hefur mikla þýðingu fyrir bæði starfsmenn og stúdenta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og kom það í hlut sex nemenda af sviðinu að votta samning um byggingu sjúkrahótelsins með undirskrift sinni en þetta gerðu nemendurnir fyrir hönd framtíðarstarfsmanna spítalans. Nemendurnir eru Ómar Rafn Stefánsson, nemi í lyfjafræði, Páll Óli Ólason læknanemi, Inga María Árnadóttir hjúkrunarfræðinemi, Thelma Rut Grímsdóttir, nemi í næringarfræði, Anna Margrét Bjarnadóttir tannlæknanemi og Örnólfur Thorlacius sálfræðinemi. 

Á myndinni eru nemendur af Heilbrigðisvísindasviði með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Ragnhildi Helgadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem bæði vottuðu sjálfa skóflustunguna.
Kristján Þór Júlíusson tekur fyrstu skóflustunguna að nýju sjúkrahóteli við Landspítala að viðstöddu fjölmenni.
Á myndinni eru nemendur af Heilbrigðisvísindasviði með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Ragnhildi Helgadóttur, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem bæði vottuðu sjálfa skóflustunguna.
Kristján Þór Júlíusson tekur fyrstu skóflustunguna að nýju sjúkrahóteli við Landspítala að viðstöddu fjölmenni.