Skip to main content
8. mars 2015

Fyrsta skóflustunga að byggingu fyrir SVF

""

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra,  Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tóku fyrstu skóflustungu að nýbyggingu fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands í dag, á alþjóðadegi kvenna. Byggingin mun rísa á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu, næst gömlu Loftskeytastöðinni. Framkvæmdir hefjast á næstunni og á byggingin að verða tilbúin í október 2016.

Vigdís Finnbogadóttur, velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, Menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, og starfsmenn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hafa undanfarin ár kynnt og leitað eftir stuðningi við þetta metnaðarfulla verkefni bæði innanlands og utan. Verkefnið hefur hlotið gríðarlega jákvæðar undirtektir og hafa fjölmargir einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök lagt því lið með fjárhagslegum stuðningi. Auk þess nýtur verkefnið rausnarlegs stuðnings íslenskra stjórnvalda, Reykjavíkurborgar og Happdrættis Háskóla Íslands.

Í verkefninu felast stórkostleg tækifæri til rannsókna og atvinnusköpunar og á það vafalítið eftir að verða mikil lyftistöng fyrir íslenska menningu og fræðasamfélag. Það verður nú að veruleika í samtaki margra.

Í húsinu verður fjölbreytt starfsemi sem öll miðar að því að auka þekkingu á erlendum tungumálum og menningu og mikilvægi þeirra og miðla henni sem víðast. Þar verður til húsa Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sem mun starfa undir merkjum UNESCO. Hún er fyrsta  tungumálamiðstöð sinnar tegundar í heiminum sem hlýtur slíkan sess. Í byggingunni verður einnig aðstaða til kennslu og rannsókna í þeim erlendu tungumálum sem kennd eru við Háskóla Íslands og þekkingarmiðstöð þar sem leikir og lærðir geta fræðst um erlend tungumál og menningu á lifandi og skapandi hátt.

Stolt og þakklæti var efst í huga þeirra Vigdísar, Illuga og Kristínar að lokinni skóflustungu í dag og öll vonuðust þau til að hin nýja tungumálamiðstöð myndi efla skilning á milli ólíkra menningarheima.

Sex manna stjórn hefur verið skipuð yfir tungumálamiðstöðina í samræmi við samning milli íslenskra stjórnvalda og Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem á tvo fulltrúa í stjórninni. Aðrir í stjórn eru fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytis og fulltrúar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Í tengslum við þetta verkefni hefur stofnunin enn fremur átt samvinnu við og notið ráðgjafar fjögurra alþjóðlega viðurkenndra erlendra vísindamanna.

Áætlaður kostnaður við bygginguna er 1,4 milljarðar króna. Framkvæmdir við hús Stofnunar Vigdísar eru í höndum byggingafélagsins Eyktar sem átti lægsta tilboð í verkið í útboði sem fram fór nú í upphafi árs.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra voru samtaka í fyrstu skóflustungunni að hinni nýju byggingu.
Nýbyggingin eins og hún kemur til með að líta út samkvæmt hugmyndum arkitekta hjá stofunni Arkitektúr.is.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra voru samtaka í fyrstu skóflustungunni að hinni nýju byggingu.
Nýbyggingin eins og hún kemur til með að líta út samkvæmt hugmyndum arkitekta hjá stofunni Arkitektúr.is.