Skip to main content

Fyrsta ráðstefnan um forgangsröðun í hjúkrun

11. apr 2017

Helga Bragadóttir, dósent og forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrunarstjórnun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala, tók þátt í fyrstu ráðstefnunni í tengslum við verkefnið „Forgangsröðun verkefna og hjúkrun sem er sleppt: Alþjóðlegt og fjölþætt vandamál“ sem fram fór á Kýpur í febrúar sl. Verkefnið er fjármagnað af Evrópusambandinu.

Ráðstefnan fór fram í Limassol á Kýpur þann 23. febrúar sl. og fjallaði um helstu áskoranir tengdar forgangsröðun í hjúkrun. Þátttakendur voru 80 talsins og komu víða að frá Evrópu, Bandaríkjunum, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Ráðstefnuna settu Andreas Anayiotos, prófessor og rektor Cyprus University of Technology, og dr. George Pamborides, ráðuneytisstjóri kýpverska heilbrigðisráðuneytisins. Á dagskrá voru 19 erindi sem flutt voru í eftirfarandi 4 málstofum a) greining hugtaka, skipulagsmál og aðferðafræði; b) gagnreyndar íhlutanir og aðferðir; c) siðferðisleg álitamál við forgangsröðun í hjúkrun; d) menntunarmál og þjálfun.

Verkefninu „Forgangsröðun verkefna og hjúkrun sem er sleppt: Alþjóðlegt og fjölþætt vandamál“ (e. RATIONING – MISSED CARE: An international and multidimensional problem) var hleypt af stokkunum í Brussel þann 20. september 2016.  Rannsóknir benda til þess að forgangsröðun í hjúkrun sé viðtekinn vandi og hafi neikvæðar afleiðingar fyrir sjúklinga, hjúkrunarfræðinga og stofnanir. Markmið verkefnisins er að auðvelda umræðu um forgangsröðun í hjúkrun með því að efla samstarf og skoðanaskipti ólíkra aðila, svo sem úr hjúkrun, heilbrigðisþjónustu almennt, siðfræði og félagsvísindum.

Þátttakendur í verkefninu eru frá 28 löndum Evrópu og víðar og tengjast fræðasviðum eins og hjúkrunarfræði, sálfræði, heimspeki, siðfræði, heilbrigðishagfræði og heilbrigðisstjórnun. Helga Bragadóttir og Ingibjörg Hjaltadóttir eru aðalfulltrúar Íslands í verkefninu en varamenn þeirra eru Elfa Þöll Grétarsdóttir, aðjunkt við Hjúkrunarfræðideild og sérfræðingur í öldrunarhjúkrun við Landspítala, og Sigrún Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og dósent við Viðskiptafræðideild og Háskólann á Bifröst. 

Verkefnið hefur hlotið fjármögnun úr Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins undir flokknum COST (e. European Cooperation in Science and Technology). Tilgangur COST-verkefna er að byggja upp alþjóðleg samstarfsnet á ákveðnum rannsóknasviðum.

Verkefnið hófst í september 2016 og er til fjögurra ára. 

Hér má sjá opinbera fréttatilkynningu um ráðstefnuna á íslensku og ensku

Fyrsta ráðstefnan í tengslum við verkefnið „Forgangsröðun verkefna og hjúkrun sem er sleppt: Alþjóðlegt og fjölþætt vandamál“ fór fram á Kýpur 23. febrúar sl.
Helga Bragadóttir