Skip to main content
14. apríl 2016

Fyrsta mállýsingin fyrir evrópsk táknmál

""

Aðstandendur verkefnisins Signgram hafa samið fyrsta leiðarvísi að mállýsingum evrópskra táknmála. Útgáfan markar tímamót í rannsóknum á tungumálum heyrnarlausra og er mikilvægt skref í því að gera þau jafn rétthá öðrum tungumálum. Evrópska rannsóknanetið COST styrkti verkefnið.

Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði, og Jóhannes Gísli Jónsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, eru fulltrúar Íslands í verkefninu. Mállýsingunni er ætlað að varpa ljósi á málfræði evrópskra táknmála og stuðla að fullri þátttöku heyrnarlausra í samfélaginu og varðveislu á málarfleifð þeirra. Með útgáfunni verður málfræði táknmála í Evrópu aðgengilegri fyrir táknmálssamfélög, þá sem móta málstefnu táknmála, málfræðinga og aðra sem vinna að því að styrkja stöðu táknmála í Evrópu og víðar. Þannig er stuðlað að fullri þátttöku táknmálstalandi í samfélaginu um leið og fræðilegur grunnur táknmála er styrktur.

Signgram er afrakstur vinnu sérfræðinga frá fimmtán löndum við að efla fræðilegar rannsóknir á táknmálum, en talsvert hefur vantað upp á rannsóknir á uppruna táknmála og þróun þeirra. Mállýsingin er gefin út sem handbók á netinu og er ætluð jafnt málfræðingum sem áhugafólki.

Íslenskt táknmál var leitt í lög sem móðurmál heyrnarskertra hér á landi árið 2011. Í lögunum segir: „Íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta“.

Signgram.eu

Táknmynd Signgram
Táknmynd Signgram