Skip to main content
23. júní 2017

Fundaði með rektor og ráðherra í Manitoba

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, átti fundi með bæði rektor Manitoba-háskóla og menntamálaráðherra fylkisins í heimsókn sinni til Winnipeg í Kanada liðinni viku. Samstarf háskólanna var þar m.a. til umræðu.

Rektor var boðið til Winnipeg í liðinni viku sem aðalræðumanni hátíðahalda í Winnipeg á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní, en fjöldi Vestur-Íslendinga býr í Manitoba og Norður-Dakóta. Sjálfur dagurinn var helgaður Jóni Sigurðssyni forseta og minningu hans en stytta er af honum fyrir framan þinghúsið í borginni. Jón Atli heimsótti bæina Gimli, Riverton og Hecla Island í Manitoba og Mountain í Norður-Dakóta, en þar búa Vestur-Íslendingar.

Í ferðinni til Kanada heimsótti Jón Atli einnig Manitoba-háskóla og átti fund með rektor skólans, David Barnard, um samstarfs skólanna. Jón Atli kynnti sér einnig starfsemi Íslenskudeildar Manitoba-háskóla og íslenska bókasafnið í skólanum en þess má geta að íslenskudeildin, sem er hin eina utan Íslands, hefur verið starfrækt við skólann í yfir sex áratugi. Þá hefur verið samstarfssamningur um nemendaskipti og fleira á milli Háskóla Íslands og Manitoba-háskóla frá árinu 1999. Jón Atli og Barnard ræddu möguleika á að efla samstarf skólanna á næstu misserum og halda á næsta ári samráðsráðstefnu skólanna sem haldin var á tveggja ára fresti frá 2000 til 2012.

Rektor Háskóla Íslands hitti einnig Ian Wishart, menntamálaráðherra Manitoba-fylkis, og kynnti sér m.a. starfsemi fylkisþingsins. Á fundi rektors og ráðherrans var m.a. rætt um stöðu Háskóla Íslands og samstarf við stofnanir í Manitoba. Ráðherrann sýndi starfi Háskóla Íslands mikinn áhuga, m.a. tengsl skólans við íslenskt samfélag í gegnum samfélagsverkefni o.fl.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og David Barnard, rektor Manitoba-háskóla.
Jón Atli Benediktsson og Ian Wishart
Jón Atli Benediktsson ásamt eiginkonu sinni, Stefaníu Óskarsdóttur, og syni þeirra Friðrik, við styttu af Jóni Sigurðssyni fyrir framan þinghúsið í Winnipeg.