Skip to main content
11. júní 2015

Fulltrúar norrænna háskóla ræða nýsköpun og rannsóknir

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands stendur dagana 11.-13. júní fyrir ráðstefnu NORDTEK sem er félagsskapur rektora og sviðsforseta tækniháskóla innan hinna norrænu ríkja. Þema ráðstefnunnar í ár er nýsköpun og háskólarannsóknir (Innovation and university research).

Alls eiga fulltrúar frá 27 háskólum á Norðurlöndum aðild að félagsskapnum en innan skólanna eru samtals um 120 þúsund nemendur, kennarar og rannsakendur. Von er á yfir 100 fulltrúum frá háskólunum á ráðstefnuna þar sem fjallað verður um hvernig undirbúa eigi rannsóknir innan háskóla þannig að einfaldara verði að hagnýta þær og hvernig háskólar geti skipulagt starf sitt þannig að þeir styðji betur við nýsköpunarvirkni, svo eitthvað sé nefnt.

Á ráðstefnunni mun Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, taka við formennsku í NORDTEK af Eskild Holm Nielsen frá Háskólanum í Álaborg.

Meðal þeirra sem verða með erindi eru:

Bjørn Olstad, prófessor við NTNU í Þrándheimi og aðstoðarforstjóri Microsoft í Noregi. Hann flytur erindið „Patterns for connecting universities, industry and Nordic consumers in agile innovation networks“.

Carsten Orth Gaarn-Larsen hefur mikla reynslu úr nýsköpunargeiranum og var á árunum 2005-2014 stjórnandi Hátæknisjóðsins (Hojteknologifonden) í Danmörku, óháðrar stofnunar á vegum danskra stjórnvalda sem fjárfesti í vænlegum hátæknifyrirtækjum í Danmörku með það fyrir augum að fjölga störfum og auka hagvöxt í landinu. Carsten flytur erindið „Creating and extracting value in public private partnerships“.

Ulf Petrusson, lagaprófessor við Háskólann í Gautaborg og forstöðumaður Stofnunar um nýsköpun og samfélagsbreytingar við Viðskipta-, hagfræði- og lagadeild háskólans. Hann hefur einnig komið að þróun nokkurra námsleiða sem snúa að nýsköpun við ólíkar deildir skólans. Ulf verður með erindið „Intellectual Asset Management in University and Business Collaboration.“

Hilmar Bragi Janusson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, tekur við af Eskild Holm Nielsen frá Háskólanum í Álaborg sem forseti NORDTEK.
Yfir 100 fulltrúar frá norrænum tækniháskólum sækja ráðstefnuna.